Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vill sekta duglega þá sem aka utan vegar

23.08.2018 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: samgöngustofa
Steingrímur Birgisson forstjóri Bílaleigu Akureyrar segir að allar betri bílaleigur upplýsi ferðamenn rækilega um utanvegaakstur. Þær geri allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir hann en alltaf séu einhverjir sem brjóti af sér. Eina sem dugi til að koma veg fyrir utanvegaakstur sé að sekta þá duglega.

Stefanía Ragnarsdóttir landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði sagði á Morgunvaktinni í morgun að merki væru um mikinn utanvegaakstur norðan við Vatnajökulsþjóðgarð. Hún sé orðin langþreytt á umræðunni og segir að bílaleigur þurfi að taka sig verulega á við að upplýsa ferðamenn. Steingrímur segir að allar stærri og betri bílaleigur standi sig mjög vel og kynni rækilega fyrir ferðamönnum að bannað sé að keyra utan vegar á Íslandi.

„Það er farið yfir þetta með fólkinu þegar það tekur bílinn. Við hjá bílaleigu Akureyrar erum t.d. með tímarit sem við gefum út og þar er bent sérstaklega á þetta og svo er svokallað stýrisspjald sem allar stærri bílaleigur sem eru innan SAF eru með.“  

Á stýrisspjaldinu komi fram að utanvegaakstur sé ólöglegur og hvers vegna. Einnig er þar tekið fram að það varði sektum eða fangelsi að aka utan vegar. Allar betri bílaleigur í Samtökum aðila í ferðaþjónustu noti þetta stýrispjald. Ekki sé hægt að koma alfarið í veg fyrir að fólk brjóti af sér. 
 
„Það er ekki hægt og sama á við um bílaleigur. Við getum engan vegin komið veg fyrir það að okkar viðskiptavinir keyri of hratt leggi ólöglega eða stundi utanvegaakstur.“

Bílaleigur geri allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir utanvegaakstur. 
 
„Þannig að já ég held að við séum að gera allt sem hægt er en því miður eru alltaf einhverjir sóðar sem brjóta af sér og þá þarf bara að ná í skottið á þeim.“  
 
Steingrímur segir að þeir sem hafi verið teknir fyrir utanvegaakstur nýlega hafi ekki verið á bílum frá Bílaleigu Akureyrar. 

„Til þess að koma í veg fyrir þetta held ég að það eina sem dugi sé að sekta duglega því það spyrst út. Það er það sem að bítur en við munum aldrei alveg sama hvað við eyðum löngum tíma með fólki geta komið í veg fyrir það að einhverjir því miður brjót af sér.“