Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vill samgönguátak vegna svifryksmengunar

12.03.2018 - 13:23
Mynd með færslu
 Mynd: R. Thorlacius - RÚV
Svifrykmengun er fimmfalt yfir viðmiðunarmörkum við Hringbraut í dag. Þetta er í sjötta skiptið á þessu ári sem svifryk mælist of hátt í borginni. „Það er kominn tími til að fara í átak. Hvetja fólk til að nýta almenningssamgöngur og forðast notkun nagladekkja innan borgarinnar,“ segir Kristín Lóa Ólafsdóttir heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í samtali við fréttastofu.

Klukkan tíu í morgun var hálftímagildi svifryks við Hringbraut rúmlega 240 míkrógrömm á rúmmetra. Sólarhrings heilsuverndarmörk svifryks eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Svifryk við Hringbraut er því fimmfalt meira en heilsusamlegt þykir. Hálftímagildi svifryks við Grensásveg var rúmlega 170 míkrógrömm á rúmmetra klukkan tíu, sem er rúmlega þrisvar sinnum yfir heilsuverndarmörkum. Svifryk mældist 75 míkrógrömm á rúmmetra við Eiríksgötu á sama tíma. Líklegt þykir að svifryk mælist einnig hátt á morgun. Litlar líkur eru á úrkomu á höfuðborgarsvæðinu fyrr en á miðvikudag, samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Reykjavíkurborg og Heilbrigðiseftirlitið mælist til þess að börn og þau sem eru viðkvæm í öndunarfærum stundi ekki útivist í nágrenni stórra umferðargatna. Í tilkynningunni er almenningur hvattur til að draga úr notkun einkabíls og nýta sér frekar almenningssamgöngur eða aðra vistvæna samgöngumála. Styrkur svifryks má fara 35 skipti á ári yfir sólarhringsheilsuverndarmörk sem er jafnoft og er leyfilegt hjá borgum víðast hvar í Evrópu. 

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV