Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vill samanburð á kostum virkjunar og þjóðgarðs

01.12.2017 - 14:10
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Skynsamlegt er að bera saman kosti þess að reisa Hvalárvirkjun í Árneshreppi og að stofna þar þjóðgarð. Þetta tvennt fer ekki sérlega vel saman, að mati Guðmundar Inga Guðbrandssonar, nýs umhverfisráðherra.

Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki rammaáætlunar. Næstu skref varðandi þá virkjun eru því á borði sveitarstjórnar í Árneshreppi og hjá Orkustofnun, að sögn Guðmundar. „Á þessum tímapunkti er þetta heimamanna að skoða. Mér finnst að það ætti að bera þessa tvo möguleika kirfilega saman og hvað þeir þýða fyrir samfélagið í Árneshreppi,“ sagði Guðmundur í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. „Hvort er líklegra til að skapa fleiri störf og meiri verðmæti til framtíðar?“ spyr Guðmundur.

Guðmundur nefnir að ein af ástæðum þess að virkjunin fór í nýtingarflokk rammaáætlunar á sínum tíma hafi verið sú að tilkoma hennar myndi bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum. Sú skýring er langsótt, að hans mati. „Það sem þarf að laga varðandi raforkumál á Vestfjörðum er að tryggja betur afhendingaröryggi orku. Þar myndi ég vilja sjá að horft yrði til hvaða möguleikar eru til staðar til að setja raflínur í jörð á þessu svæði.“ Þetta þurfi að kanna áður en hafist verður handa við byggingu á Hvalárvirkjun. 

Mynd með færslu
 Mynd: RUV