Vill opna aðgang að íslensku vísindaefni

28.08.2018 - 19:44
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Ingibjörg Steinunn Sveirrisdóttir landsbókavörður kallar eftir opinberri stefnu um aðgang að vísindaefni á afmælisári safnsins. Guðbrandsbiblía, handskrifaður texti passíusálma Hallgríms Péturssonar, þjóðsagnasafn Jóns Arnasonar eru meðal þeirra gersema sem geymdar eru í rammgerðri öryggisgeymslu Landsbókasafnsins og koma sjaldan fyrir augu almennings nema helst í rafrænu formi.

Tvö hundruð ár eru síðan Landsbókasafn Íslands var stofnað. Það var lengi í safnahúsinu við Hverfisgötu en var flutt í Þjóðarbókhlöðuna fyrir meira en tuttugu árum. Safnið geymir allar bækur sem gefnar hafa verið út á íslensku og í öryggisgeymslu safnsins er geymt það sem er allra verðmætast.    

Öryggisgeymsla Landsbókasafnsins er sérstaklega styrkt og raka og hitastigi þar er stýrt, enda eru helstu þjóðargersemar Íslendinga varðveittar í henni. Þar eru elstu prentuðu bækur á landinu, handrit og einkaskjöl og sjálf Guðbrandsbiblía. Einnig má finna handskrifað handrit Hallgríms Péturssonar að Passíusálmunum og þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar.

Handrit Hallgríms Péturssonar kemur ekki oft fyrir augu almennings en það má finna á vef safnsins þar sem gamli og nýi tíminn mætast.  
Ingibjörg segir að á hverju ári séu teknar hundruðir þúsunda mynda af handritum og tímaritum. „Við erum með td. vefinn tímarit.is. Það er allt sem sagt í stafrænni endurgerð, bækur.is, íslandskort og fleira og fleira. Við erum svona smám saman að færa allt efnið okkar yfir á stafrænt form.“

Víða í Evrópu og Bandaríkjunum hafa söfn opnað aðgang á netinu að vísindaefni en Íslendingar hafa setið eftir. Landsbókavörður vill breyta þessu. 

„Við viljum setja meiri kraft í það að allt rannsóknarefni íslenskt sem er unnið fyrir opinbert fé að það sé aðgengilegt öllum landsmönnum  og öllum heiminum þess vegna í opnum aðgangi.“

Hún kallar eftir stefnu frá stjórnvöldum um opinn aðgang. „Okkur vantar opinbera stefnu Íslands um opinn aðgang og við höfum verið að kalla eftir því við menntamálaráðuneytið. Ég  á von á því að það verði unnið á næstu árum.“
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV