Vill nýtt nafn og merki fyrir Samfylkinguna

15.05.2016 - 15:25
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrverandi varaformaður og þingmaður Samfylkingarinnar, segir óásættanlegt að flokkurinn skuli mælast með sjö til átta prósenta fylgi og að hann þurfi að fara í ákveðið uppbyggingastarf. Hann kveðst ekki vera giftur Samfylkingarnafninu og segist sjálfur vilja að flokkurinn taki upp nafnið Jafnaðarmannaflokkur Íslands.

Ágúst Ólafur var gestur Helgarútgáfunnar á Rás 2 í morgun ásamt Áslaugu Huldu Jónsdóttur, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.

Ágúst Ólafur segir stöðu flokksins vera óásættanlega. „Samfylkingin á að hugsa mál sín upp á nýtt. Jafnaðarmenn eru að dreifast á fjóra til fimm flokka og Samfylkingin var stofnuð til að vera jafnaðarmanna. Þá breiðfylkingu vantar í dag og því þurfum við að fara í ákveðið uppbyggingastarf - staðan einfaldlega kallar á það.“

Ágúst Ólafur segir það til að mynda rakið dæmi að Björt framtíð sameinist undir einum hatti - þetta séu nánast skoðanasystkini. Þá sé einnig að finna fólk með svipaðar hugmyndir hjá Pírötum, Vinstri grænum og jafnvel Viðreisn. Ágúst kveðst fylgjandi því að Samfylkingin skipti um nafn - það sé þó engin töfralausn. „Ég er á því að við eigum að heita Jafnaðarmannaflokkur Íslands og vera með rósina sem er alþjóðlegt merki jafnaðarmanna. Ég er ekkert giftur þessi nafni, Samfylkingin - það er samt engin töfralausn.“

Samfylkingin kýs nýjan formann og varaformann á landsfundi flokksins í byrjun næsta mánuði.  Flokkurinn vann sigur í Alþingiskosningunum 2009 - fékk þá tæp 30 prósent og 20 þingmenn en galt afhroð í þingkosningunum fyrir þremur árum, fékk þá tæp 13 prósent og níu þingmenn. Katrín Júlíusdóttir og Kristján L. Möller hafa þegar ákveðið að gefa ekki áfram kost á sér og þá hefur Árni Páll Árnason ekkert viljað gefa upp um sín framtíðaráform.

Gustað hefur um flokkinn að undanförnu, hann hefur komið illa út úr skoðanakönnunum að undanförnu, mældist síðast með 8 prósent í könnun Gallups í byrjun mánaðarins. Sitjandi formaður, Árni Páll Árnason, ákvað að draga formannsframboð sitt til baka nokkrum dögum eftir að hafa tilkynnt að hann sæktist eftir endurkjöri. 

Magnús Orri Schram, einn af formannsframbjóðendum flokksins, sagðist í grein í Fréttablaðinu vilja leggja Samfylkinguna niður og búa til nýjan flokk. Og í gær sendi Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður flokksins, fjölmiðlum yfirlýsingu þar sem hún gagnrýndi orð formanns síns í viðtali við DV.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi