Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Vill nýtt mat vegna Bjarnarflagsvirkjunar

16.04.2013 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Steingrímur J. Sigfússon vill fresta áformum um Bjarnarflagsvirkjun og að gert verði nýtt mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar. Þetta kom fram á kjördæmafundi RÚV á Akureyri í gær. Hann vill að Landsvirkjun byrji að virkja við Þeistareyki.

Kjördæmafundur RÚV fyrir Norðausturkjördæmi var haldinn í Háskólanum á Akureyri í gærkvöld. Þar sátu fulltrúar ellefu framboðslista fyrir svörum. Fyrirspurn frá einum fundargesta var beint til Steingríms J. Sigfússonar, sem skipar fyrsta sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í kjördæminu. Spurt var hvort það væri stefna Vinstri grænna að hætta við Bjarnarflagsvirkjun.

„Við viljum ekki taka neina áhættu varðandi lífríki Mývatns og Laxár og myndum því vilja að þessu yrði gefinn meiri tími og helst að það umhverfismatið yrði endurtekið,“ sagði Steingrímur, „að minnsta kosti þeir þættir sem snúa að mögulegum áhrifum á lífríki Mývatns. Sem betur fer eru ekki nein vandræði með orkuöflun annars staðar í Þingeyjarsýslu og æskilegast væri að Landsvirkjun tæki þá ákvörðun að byrja á Þeistareykjum.“

Steingrímur var inntur eftir því hvort hann vildi sem sagt bíða með Bjarnarflag og taka Þeistareyki fram fyrir: „Já ég myndi fagna því fyrstur manna ef Landsvirkjun yrði tilbúin að gefa það út og að það yrði farið í endurtekið umhverfismat,“ svaraði hann og bætti við. „Það þarf ekki að endurtaka það í heild, en það er hægt að setja þá þætti í mat sem snúna sérstaklega að mögulegum áhrifum á lífríki Mývatns og nærumhverfið.“

Um 8.000 manns hafa ritað nafn sitt undir áskorun Landverndar um að Landsvirkjun stöðvi nú þegar framkvæmdir við fyrirhugaða 45 til 90 megawatta Bjarnarflagsvirkjun og láti gera nýtt mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar.