Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill nýjar leiðir í markaðssetningu Grímseyjar

11.02.2019 - 14:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Forseti bæjarstjórnar á Akureyri vill skoða hvort rétt væri að markaðssetja Grímsey sem dvalarstað fyrir barnlaust, miðaldra fólk sem gerir ekki miklar kröfur um þjónustu. Barnafólki fækkar stöðugt í Grímsey og að óbreyttu verða þar aðeins tvö börn á skólaaldri næsta vetur.

Mikil vinna hefur síðustu ár verið lögð í byggðaaðgerðir í Grímsey en þar hefur fólki fækkað mikið og yngra fólki alveg sérstaklega. Nú er komið á fjórða ár síðan ríkisstjórnin skipaði starfshóp til að ráðast í fjölþættar aðgerðir til að styrkja byggð í Grímsey. Þá var hún tekin inn í verkefni Byggðastofnunar um brothættar byggðir.

Segir engan bilbug að finna á þeim sem nú búa í Grímsey

Margar af þeim aðgerðum sem ráðist var í hafa tekist allvel og segja má að lífsgæði þeirra sem búa í Grímsey hafi batnað. Stóra markmiðið, að stöðva fólksfækkun, hefur hinsvegar ekki gengið eftir. Því spyrja margir hvenær sé komið nóg af aðgerðum og hvort ekki sé búið að reyna allar mögulegar leiðir. „Það er engan bilbug að finna á íbúum eyjarinnar. Þeir sem eru þarna eru bara mjög ánægðir og mikill kraftur í fólki og maður finnur það,“ segir Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Akureyri.

Staður fyrir miðaldra og barnlaust fólk

Það sé áhyggjuefni að börnum í Grímsey fækki og þegar finnist ekki leiðir til að fjölga þar barnafólki verði að upphugsa nýjar leiðir. „Er þetta bara hreinlega eyja eða staður fyrir miðaldra fólk að búa á. Sem þarf kannski ekki mikla þjónustu hvað varðar skóla og svoleiðis. Verðum við ekki að fara að skoða nýjar leiðir og markaðssetja þennan stað fyrir annan aldurshóp,“ segir Halla Björk.