Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill mæla hagvöxt í sæld frekar en framleiðslu

07.08.2018 - 10:17
Mynd: hallaharðar / hallaharðar
Kristín Vala Ragnarsdóttir, jarðvísindakona og kennari við Háskóla Íslands, er meðal þeirra sem undanfarin ár hafa talað fyrir því að árangur þjóða verði mældur í öðru en vergri landsframleiðslu. Hún vinnur nú með alþjóðlegum vísindahópi við að þróa hugsun og vísa til að nálgast sældarhagkerfi.

„Róbert Kennedy sagði að landsframleiðsla mæli allt nema það sem gefi lífinu virði. Þjóðir heimsins mæla vöxt í vergri landsframleiðsu og ráðamenn eru ánægðir þegar það verður hagvöxtur,“ segir Kristín Vala Ragnarsdóttir, jarðvísindakona og prófessor við Háskóla Íslands. „Hagvöxtur mælir einungis flæði fjár í gegnum hagkerfið, en ekki þá eyðileggingu á náttúrunni og samfélaginu sem fylgir, og er grunnþátturinn í því ástandi sem við nú erum í; vistkerfin hafa hnignað, auðlindir eru þverrandi og jöfnuður ríkir ekki innan landa eða á milli þeirra.“

Kristín Vala er félagi í ýmsum hugveitum sem vinna að sjálfbærni og var nýlega skipuð af Katrínu Jakobsdóttur í nefnd um þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, með grunnþætti sjálfbærrar þróunar, umhverfis, hagkerfis og samfélag auk heimsmarkmiða Sameinuðuþjóðanna í huga. Hún hefur einnig unnið með alþjóðlegum vísindahópi við að þróa hugsun og vísa til að nálgast það sem kallast á ensku sustainable wellbeing economy, eða sældarhagkerfi, eins og Kristín Vala kýs að kalla það.  

„Þjóðir sem taka upp slíkt hagkerfi munu nota samþætta vísa fyrir náttúru, efnahag og samfélag með það meginmarkmiði að jarðarsamfélagið verði sjálfbært, þ.e. það sé jafnvægi á milli náttúru, efnahags og samfélags innan marka jarðarinnar. Við höfum lagt til að unnt sé að mæla efnahagslega þáttinn með því að nýta verga landsframleiðslu sem grunn, en draga allt sem er neikvætt frá, t.d. umhverfisslys og lélegt heilsufar, og bæta við því sem er jákvætt, t.d. foreldri sem er heima við uppeldisstörf, sjálfboðavinnu, osfr. Þetta kallast raunverulegur framfarastuðull. Ég hef einnig unnið með þessum hópi vísindamanna í að fá ríkisstjórnir til að taka þátt í þróun sældar, eða vellíðunar, þjóða. Fyrsti fundur fimm þjóða var haldinn í Skotlandi og þar tóku 5 þjóðir þátt (Skotland, Svíþjóð, Slóvenía, Nýja Sjáland og Kostaríka). Næsti fundur verður í Kóreu innan fundar OECD í nóvember á þessi ári, og þá vonumst við að fleirri þjóðir taki þátt, þ.á.m. Ísland, Noregur, Finnland, Tæland og fleiri.“

Helst þetta í hendur að þínu mati,  sjálfbærni og hamingjusöm þjóðfélög?

„Í sjálfbærum samfélögum er höfuðáherslan á að bæði borgurum og náttúrunni líði vel. Ef þér líður vel ertu líklegri til að vera hamingjusamur. Þannig að þetta helst allt í hendur.“

Kristín Vala var gestur Morgunvaktarinnar á Rás1 og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.