Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vill loka veginum um Þingvelli og lækka hraða

10.04.2017 - 12:30
Þéttbýlishlið við inngang að Þingvöllum.
Mynd úr safni Mynd: Vegagerðin
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur að við óbreytt ástand í samgöngumálum innan sveitarfélagsins verði ekki unað, vegir séu illa farnir og ríkið veiti ekki nauðsynlegt fé til endurbóta. Oddviti segir tímaspursmál hvenær stórt rútuslys verði.

Innan marka sveitarfélagsins Bláskógabyggðar eru fjölfarnir ferðamannastaðir eins og Þingvellir, Gullfoss, Geysir og Skálholt. Í bókun sveitarstjórnar segir að veita þurfi mun meira fjármagni til uppbyggingar og viðhalds vega, við óbreytt ástand verði ekki unað. „Tilefið eru þessi slys og óhöpp sem hafa verið í Bláskógabyggð undanfarið og ástand vegakerfisins líka. Vegakerfið er hrunið og við erum bara að bíða eftir að stóra slysið verði. Rúta velti eða fari á hliðina og það verði leiðinda óhapp“ segir Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar.

Kemur til greina að loka vegum og lækka hraða

Sveitarstjórnin telur forgansröðun ríkisins í vegamálum ranga enda öryggi íbúa og gesta í húfi. „Eins og vegurinn í gegnum þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þetta er vegur sem er gjörsamlega búinn og það ætti í raun að loka honum. Ég held að það væri réttast“. Fleiri bílar fari um vegakerfi Bláskógabyggðar en víða um hringveginn, til að mynda fóru fleiri ökutæki um Mosfellsheiði í fyrra en um Holtavörðuheiði. Verði ekki gerð bragarbót á vegakerfinu í sveitarfélaginu sé nauðsynlegt að lækka hámarkshraðann. „Það er ekki forsvaranlegt að setja stórar rútur inn á ákveðna vegakafla á 90 kílómetra hraða. Þetta eru kannski óvanir bílstjórar líka sem eru ekki að fara þessa vegi dags daglega“. Segir Helgi og bætir við „Þegar menn þekkja ekki þessa vegarkafla þá er það ábyrgðarleysi að menn séu að fara á 90 kílómetra hraða þar sem vegurinn er siginn og kantarnir eru að gefa sig. Hvað væri hæfilegur hámarkshraði. Ég held að 70 væri hæfilegur hámarkshraði á nokkrum köflum“.

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV