Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vill lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð

05.04.2017 - 13:14
Innlent · NPA · Stjórnmál
Mynd með færslu
 Mynd: rúv - rúv
Notendastýrð persónuleg aðstoð, NPA, og fyrirkomulag þeirrar þjónustu sveitarfélaga verður lögfest í nýju frumvarpi félagsmálaráðherra um þjónustu við fatlað fólk. Mörg nýmæli eru í frumvarpinu og verði það að lögum mun það þýða mikla réttarbót fyrir fatlaða og fjölskyldur þeirra.

Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi að nýjum heildarlögum sem fjalla um þjónustu við fatlað fólk, sem hefur þörf fyrir mikinn stuðning. Meginmarkmið frumvarpsins er að innleiða ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í íslenska löggjöf. Samhliða leggur ráðherra fram frumvarp til breytinga á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Frumvarpið er byggt á vinnu starfshóps sem var skipaður 2014. Helstu breytingar eru þær að kveðið er á um lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra eru styrktar og skerpt er á skilum milli laga um málefni aldraðra og laga sem gilda um þjónustu við fatlað fólk 67 ára og eldra. 

Ýmis nýmæli eru í frumvarpinu varðandi þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Má þar nefna að sveitarfélög skuli bjóða fötluðum börnum frístundaþjónustu eftir að skóladegi lýkur og eftir atvikum áður en dagleg kennsla hefst og að auki á öðrum dögum en lögbundnum frídögum þegar skólar starfa ekki. 

Þá eru einnig nýmæli í frumvarpinu sem lúta að bættri þjónustu við börn með samþættar geð- og þroskaraskanir. 

Þá er ákvæðum um atvinnumál breytt til samræmis við þá stefnu að um atvinnumál fatlaðs fólks skuli fara með sama hætti og um atvinnumál almennt. 

Kostnaðarauki vegna frumvarpsins er talinn nema um 970 milljónum samtals á tímabilinu 2018 til 2022.