Vill ljúka við Vaðlaheiðargöng

18.03.2017 - 19:45
Fjármálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp um að tryggja fjármagn til að ljúka gerð Vaðlaheiðarganga. Hann segir ekki hægt að skilja þau eftir ókláruð en útilokar ekki að hluti fjármagnsins komi annars staðar en frá ríkinu, til dæmis sveitarfélögum eða einkaaðilum.

Kostnaður við Vaðlaheiðargöng hefur þegar farið ríflega þremur milljörðum króna fram úr áætlunum vegna þess að flætt hefur inn í göngin, ýmist heitu eða köldu vatni. Viðræður um viðbótarlán hafa staðið yfir. Stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga sagði í fréttum RÚV í gær að fjármunirnir verði væntanlega upp urnir í sumar, en þá er áætlað að búið verði að komast í gegn.

„Ég mun beita mér fyrir því að aðilar sem sjá um framkvæmd verksins fái lán til að ljúka því. Ég held að það sé ekkert vit í öðru. Það er lítið gagn af göngum þar sem sést ekki einu sinni í gegn ennþá þannig að það þarf að ljúka þessari framkvæmd,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.

Benedikt segir það hugsanlegt að þessir fjármunir komi ekki eingöngu frá ríkinu. „Ég útiloka það ekki neitt, hvort sem það eru sveitarfélög eða einkaaðilar sem myndu leggja fram viðbótarfjármagn.“

Fjármálaráðuneytið hefur óskað eftir umsögn frá ríkisábyrgðarsjóði vegna málsins og er hennar að vænta um næstu mánaðamót. Benedikt vill ekki slá því föstu hvenær frumvarp um lánveitinguna verður lagt fram. Hann er þó sannfærður um að meirihluti sé fyrir því á þinginu og að ekkert hlé verði á framkvæmdum.

Er ekki svolítið blóðugt að þurfa að setja inn þessar aukafjárveitingar, sérstaklega þegar verið er að slást um fjármagn í aðrar vegaframkvæmdir?

„Jú, auðvitað er það blóðugt hvernig þetta hefur gengið og það þekkja allir, þarna hefur streymt út heitt og kalt vatn sem enginn átti von á. En þetta er nú bara raunveruleikinn eins og hann er.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi