Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vill láta skoða bílaleigubíla á hverju ári

16.02.2019 - 18:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjölmargir hafa leitað til Neytendasamtakanna vegna frétta um svindl bílaleigunnar Procar. Engin kæra hefur þó enn borist til lögreglu vegna málsins. Formaður Neytendasamtakanna segir að bílaleigubílar ættu að fara í skoðun á hverju ári, líkt og leigubílar.

Greint var frá því í fréttaskýringarþættinum Kveik að bílaleigan Procar hefði fært niður akstursmæla í bílum fyrirtækisins. Margir þeirra hafi svo verið seldir grunlausum kaupendum.  „Töluverður fjöldi félagsmanna hefur haft samband við okkur með áhyggjur af bílunum sínum sem þeir hugsanlega hafa keypt notaða af bílaleigum - og ekkert endilega bara þessari bílaleigu heldur öðrum bílaleigum líka - og þeir vilja vita hvernig þeir geta fengið upplýsingar um það hvort að átt hafi verið við kílómetramælinn þeirra,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

Hann segir að það sé þó ekki alltaf hægt að sjá hvort átt hafi verið við mælinn. „Það er mjög misjafnt eftir tegundum og gerðum á bílum en í sumum tilvikum er það hægt.“ Neytendasamtökin vinni nú að samantekt fyrir félagsmenn og gátlista með þeim upplýsingum sem þarf til þess að vita hvort svo sé. 

Þarf að grípa til aðgerða svo ekki sé hægt að svindla 

Breki segir nauðsynlegt að gera gangskör að því að bæta úr þessu, þannig að það sé ekki hægt að gera þetta í framtíðinni.

Þar til síðla árs 2009 voru bílaleigubílar skoðaðir árlega á grundvelli þess að þeim er ekið mun meira en öðrum fólksbílum. Núna fara nýir bílaleigubílar ekki í aðalskoðun fyrr en að fjórum árum liðnum. Framkvæmdastjóri FÍB sagði í fréttum RÚV að samgönguráðherra hefði frestað reglugerð um tíðari aðalskoðun bifreiða vegna þrýstings frá bílaleigum og frá Samtökum ferðaþjónustunnar. „Leigubíla þarf að skoða á hverju einasta ári og þeir eru bara keyrðir af einum eiganda yfirleitt, en bílaleigubílar eru keyrðir af töluverðum fjölda fólks á hverju einasta ári og af mismikilli natni, þannig að mér finnst alveg augljóst að það þurfi að skoða bílana á hverju ári,“ segir Breki.

Karl Steinar Valsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að gögn frá Kveik um Procar séu til skoðunar hjá lögreglu. Enn hafi þó engin kæra borist vegna málsins.