Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Vill Landspítala í forgang

16.06.2014 - 18:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnvöld þurfa að taka tillit til aukinnar fjárfestingar í einkageiranum til að koma í veg fyrir þenslu, að mati fjármálaráðherra. Hann vill þó setja framkvæmdir við Landspítalann í forgang.

Fjárfesting tekur verulega við sér á þessu ári og næstu tveimur, samkvæmt nýrri spá Landsbankans. Helsta skýringin er töluverð aukning í atvinnuvegafjárfestingu. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að í drögum að nýjum lögum um opinber fjármál sé gert ráð fyrir því að stjórnvöld horfi vítt yfir sviðið áður en stórar ákvarðanir séu teknar í opinberum fjármálum.

Bjarni segir að vissulega virðist fjárfesting einkageirans fara vaxandi, og til þess þurfi að taka tillit. „Það veldur samt ákveðnum áhyggjum að fjárfesting hjá ríkinu og sveitarfélögum hefur verið mjög lág að undanförnu. En það er ekki hægt að koma sér undan því að máta inn í hagkerfið áform um stærri framkvæmdir á borð við Landspítalann,“ segir Bjarni.

Aðspurður um hvort þetta þýði að fresta eigi byggingu Landspítala um einhver ár, segir Bjarni svo ekki vera. Nei, ég tel reyndar að við eigum að setja það í forgang að koma framkvæmdum við Landspítalann fyrir. Það verður þá frekar eitthvað annað sem þyrfti að víkja.