Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vill jafna stuðning milli hópa flóttamanna

20.09.2015 - 13:28
epa04935183 Migrants wait to be registered in front of the registration camp in the town of Presevo, South Serbia, 17 September 2015. About 23,000 new arrivals of migrants are expected in Presevo during the coming weeks. Thousands are on their way to the
Farandfólk bíður eftir að skrá sig í bæ í Suður-Serbíu í haust. Mynd: EPA
Mikilvægt er að skoða hvort rétt sé að veita hælisleitendum stuðning sem svipar meira til þess stuðnings sem kvótaflóttamenn fá, að mati forsætisráðherra. Stjórnvöld vilja líta á þennan hóp sem eina heild.

 

 

Ríkisstjórnin ákvað í gær að verja tveimur milljörðum króna á þessu og næsta ári í stuðning við flóttamenn, ýmist til að taka á móti flóttamönnum sem hingað koma, styðja við hjálparstarfs erlendis eða hraða afgreiðslu á umsóknum hælisleitenda.

Kerfið núna er þannig að flóttamenn sem valdir eru úr flóttamannabúðum, sem í daglegu tali eru kallaðir kvótaflóttamenn, fá opinberan stuðning til að koma sér fyrir og aðlagast samfélaginu. Um þann stuðning gilda meðal annars viðmiðunarreglur flóttamannaráðs, þar sem fram kemur að flóttafólk eigi rétt á góðum stuðningi í eitt ár eftir komu til landsins. Það hefur jafnvel verið gagnrýnt að sá tími sé ekki lengri. Þeir sem fá landvistarleyfi sem hælisleitendur fá hins vegar engan slíkan stuðning.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að margar ábendingar hafi borist, meðal annars frá Rauða krossinum, um að æskilegt sé að draga úr þeim mun sem er á þessum tveimur hópum. „Það er mikilvægt að skoða þetta núna, vegna þess að lengst af, í tvo áratugi og jafnvel lengur, voru langflestir flóttamenn sem hingað komu kvótaflóttamenn. Það heyrði til undantekninga ef menn kæmu með öðrum hætti. Þetta hefur snarbreyst á allra síðustu árum og þess vegna þurfum við að breyta því hvernig við tökumst á við vandann.“

Sigmundur segir að þegar sé hafinn undirbúningur að komu fyrsta hópsins, sem kemur í desember frá Líbanon. „En auk þess mun ráðherranefndin starfa áfram og með henni hópur fimm sérfræðinga sem á eftir að skipa en mun hafa það hlutverk að vinna með okkur að því að skipta þessu fjármagni.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV