Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vill hugsanlega rétta sinn hlut sinn í sögunni

20.05.2016 - 17:18
Mynd: RUV / RUV
Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur segir að þó að Davíð Oddsson vinni ekki forsetakosningarnar sé hann hugsanlega að bjóða sig fram til að fá tækifæri til gera upp söguna og rétta sinn hlut.

Gunnar Helgi veltir því fyrir sér hvað Davíð ætli sér með framboði til forseta. Davíð eigi við fortíðardrauga að glíma. Menn hafi lengi talið að hann hafi haft hug á  embættinu. Könnun hafi verið gerð 1996 til að kann hvort hann hefði einhvern hljómgrunn. Gunnar Helgi segir að vissulega sé einn möguleiki að hann telji að hann geti unnið kosningarnar þó að kannanir bendi ekki til þess.  Davíð gæti fengið fleira út úr kosningunum jafnvel þótt hann ynni ekki.

„Davíð er náttúrulega enn þá áhrifamaður í íslenskri pólitík. Hann gæti notað þetta tækifæri til að þjappa sínu fólki saman og halda á lofti ákveðnum málstað sem honum er hugleikinn. Til dæmis varðandi stöðu Íslands á alþjóðavettvangi, þjóðernishyggju og framvegis. Svo gæti auðvitað líka verið einfaldlega að hann hefði áhuga á að nota þetta tækifæri til að gera upp söguna og rétt sinn hlut í henni. Fá tækifæri til að ná til fleiri en þeirra sem eru áskrifendur að Morgunblaðinu,“ segir Gunnar Helgi.

Gunnar Helgi bendir á að Davíð hafi líklega ágætis skipulag í kringum sig sem tengist skipulagi Sjálfstæðisflokksins og hann hefur aðgang að fjármagni og fjölmiðlum. Forsendur Davíð til að reka kosningabaráttu sé því mjög góðar. Guðni hafi hins vegar enga reynslu úr pólitík og hann verið því að byggja allt skipulag frá grunni.
„Þó að það beri mjög mikið á milli Guðna og Davíðs þá verði þetta ekki þægileg ferð fyrir Guðna. Ekki jafnþægileg og tölurnar benda til. Stuðningsmannahópur Davíðs og hann sjálfur munu ná að velgja honum undir uggum og gera þetta heldur óþægilegri kosningabaráttu. Þar með er ég þó ekki að segja að þeir nái þeim árangri að sigra í kosningunum,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson.

Nánar er rætt við Gunnar Helga í Speglinum. 
 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV