Vill gera Everest-myndina í þrívídd

Mynd með færslu
 Mynd:

Vill gera Everest-myndina í þrívídd

19.02.2013 - 18:34
Baltasar Kormákur staðfestir í samtali við fréttastofu að hann sé í viðræðum við Christian Bale um að leika í nýjustu mynd hans, Everest. Hann segist hafa sett það sem kröfu að myndin yrði að stórum hluta gerð á Íslandi og stefnir á að gera hana í þrívídd.

Bale er einn þekktasti leikari Hollywood, frægur fyrir mikið skap og að leika sjálfan Leðurblökumanninn. Baltasar  hitti Bale á búgarði hans og sýndi honum Djúpið, sem fékk á dögunum ellefu Edduverðlaun. Bale varð strax hrifinn og vildi vera með. Í Hollywood nægir það ekki eitt og sér og nú er unnið að því að finna tíma og pláss í annasamri dagskrá leikarans.

Þetta yrði þá ekki í fyrsta skipti sem Bale kæmi til Íslands, hann var hér í stuttan tíma ásamt Liam Neeson við tökur á Batman Begins. Baltasar segir að hann hafi látið vel af dvöl sinni hér á landi og eiginkona Bale kveðst vera mjög spennt fyrir því að koma með alla fjölskylduna hingað til lands.

Myndin verður engin smásmíð, framleiðslukostnaðurinn verður á bilinu sextíu til sjötíu milljónir dollara og Baltastar stefnir á að gera hana í þrívídd. Everest fjallar um mannskætt slys sem varð á Everest árið 1996 þegar átta fjallgöngumenn fórust í ofsaveðri.  Baltasar segir að menn hafi prófað að yfirfæra gamalt fjallatökuefni yfir á þrívíddarformið og það hafi komið afar vel út. Leikstjórinn segist jafnframt hafa sett það sem kröfu að stór hluti myndarinnar yrði gerður á Íslandi og næstu dagar fara í að finna hentuga tökustaði, Vatnajökull er þar efstur á blaði.

Baltasar segir að það vinni með sér að það er fremur auðvelt að komast uppá fjöll hér á landi og menn verði ekki fjallaveiki að bráð þegar þeir ganga á íslenska tinda. Meðal þeirra sem verða Baltasar innan handar er fjallgöngugarpurinn David Breashers, sem var á Everest þegar slysið varð. Baltasar segir að hann hafi þekkt vel til Vatnajökuls og gefið blessun sína yfir honum sem tökustað.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Bale í viðræðum við Baltasar