Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill frí bílastæði fyrir borgarfulltrúa

12.10.2018 - 06:43
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, leggur fram tillögu í borgarstjórn um að kjörnir fulltrúar og starfsmenn Ráðhússins fái frí bílastæði í borginni. Margir komi langt að í vinnuna og eigi þess ekki kost að nota almenningssamgöngur eða hjól, og einhverjir bæði vilji og þurfi að nota einkabílinn sinn til vinnu.

Tillagan var lögð fram á fundi forsætisnefndar í sumar og óskaði skrifstofa borgarstjórnar eftir upplýsingum frá Bílastæðasjóði vegna hennar. Tillagan er á lista á fundi forsætisnefndar borgarstjórnar í dag vegna undirbúnings fundar borgarstjórnar í næstu viku. Í umsögn forsætisnefndar kemur fram að borgarfulltrúar fá mánaðarlega greiðslur að upphæð 52.486 krónur til að mæta öllum persónulegum starfskostnaði, svo sem vegna ferða innan höfuðborgarsvæðisins, áskriftar dagblaða, bóka- og tímaritakaupa og svo framvegis. Hluti borgarfulltrúa var með niðurgreidd bílastæðakort í kjallara Ráðhússins þar til því var hætt í apríl 2016. Samkvæmt upplýsingum frá Bílastæðasjóði myndi mánaðarkort í Ráðhúsinu fyrir alla 23 borgarfulltrúana samanlagt kosta tæpar þrjár milljónir á ársgrundvelli. Þá er dýrara að leggja í Höfðatorgi.

Í tillögu Kolbrúnar er lagt til að sá siður leggist af að borgarstjóri hafi bílstjóra. Peningarnir sem farið hafi í launagreiðslur til bílstjórans verði nýttir til að fjármagna tillöguna. Óskað var eftir gögnum um kostnað við bílstjóra borgarstjóra með öllu sem því fylgir, segir í tillögunni, en þau gögn hafa ekki enn borist.

Leiðrétt Tillagan er á dagskrá forsætisnefndar í dag en ekki borgarráðs eins og stóð upphaflega.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV