Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill forkaupsrétt sveitarfélaga að jörðum

23.07.2018 - 12:06
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Forkaupsréttur sveitarfélaga að jörðum væri góð leið til að tryggja að stór landsvæði féllu ekki í hendur fárra útlendinga, að mati formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann telur að ríkið þyrfti þó einnig að koma þar að máli.

Eignarhald útlendinga á jörðum hérlendis hefur enn á ný komist í kastljós fjölmiðla að undanförnu – ekki síst stórfelld kaup breska auðmannsins Jims Ratcliffes á íslensku landi. Ratcliffe er auðugasti maður Bretlands og á orðið hátt í 40 jarðir hérlendis ásamt viðskiptafélögum sínum, þar af 30 á gjöfulum laxveiðisvæðum í Vopnafirði, eins og Morgunblaðið hefur fjallað um.

Tekur undir með Steingrími

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Norðausturkjördæmis og forseti Alþingis, segist í Morgunblaðinu í dag hafa áhyggjur af þróuninni. Hann telur að endurvekja ætti forkaupsrétt sveitarfélaga að jörðum, sem hafi verið afnuminn 2004. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, tekur undir með Steingrími.

„Já, mér finnst nú að sveitarfélög eigi að geta haft áhrif á þessi mál,“ segir Halldór. „Hins vegar eru mörg sveitarfélaganna, ekki síst þar sem eru stórar jarðir, frekar smá og geta kannski ekki gert mjög margt, þannig að ríkið þyrfti í slíkri lagasetningu að geta komið að slíkum málum með sveitarfélögunum.“

Þarf að fyrirbyggja vesen við málaferli

Halldór segir að sveitarfélögin hafi ekki lagt áherslu á að halda ákvæðinu inni í lögum þegar það var afnumið 2004, enda hafi ótal málaferli orðið um þau tilvik þegar gengið hafi verið inn í kaup á grundvelli ákvæðisins.

„Þannig að þetta þarf þá að vera vönduð lagasetning sem fyrirbyggir slíkt vesen,“ segir Halldór, sem telur að slík lagasetning gæti hjálpað við að koma í veg fyrir að stór landsvæði safnist á hendur erlendra auðmanna.

„Já, ég er ekki í nokkrum vafa um það. Þá er þetta komið í hendur kjörinna fulltrúa, sem eru náttúrulega bara framlenging á fólkinu – íbúum í viðkomandi sveitarfélagi,“ segir Halldór.

„Auðvitað, þegar þetta er orðið þannig að þetta virðast vera orðin skipulögð uppkaup á kannski verðmætustu svæðum á landinu, þá hljótum við Íslendingar að spyrja okkur: Hvað er í gangi? Og eigum við bara að láta þetta viðgangast?“ spyr Halldór.

Kalkþörungafélagið á engar jarðir

Halldór hefur verið formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 2006 en hann lætur af störfum á landsþingi sambandsins í haust. Hann er ekki kjörgengur lengur, enda hættur störfum sveitarstjórnarmálum. Halldór hætti í borgarstjórn í vor og tók í sumar við starfi forstjóra Íslenska kalkþörungafélagsins sem rekur verksmiðju á Bíldudal og hyggur á uppbyggingu í Súðavík og Stykkishólmi. Félagið er í eigu írska félagsins Marigot en Halldór segir að félagið eigi engar jarðir á Íslandi og hafi ekki í hyggju að eignast þær.