
Vill flokksráðsfund vegna Gunnars og Bergþórs
Greint var fyrst frá yfirlýsingu Birgis í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Gunnar Bragi og Bergþór sneru nýverið aftur til starfa sem þingmenn eftir að hafa farið í tímabundið leyfi eftir Klausturmálið. Gunnar Bragi er þingflokksformaður flokksins en Bergþór er formaður samgöngunefndar Alþingis. Uppnám varð í samgöngunefnd í gær þegar minnihlutinn ásamt Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmanni Vinstri grænna, lögðu til að Bergþór myndi víkja sem formaður. Tillögunni var vísað frá.
Í yfirlýsingunni segir Birgir jafnframt að hann sé ekki á leiðinni úr þingflokki Miðflokksins eins og gefið var í skyn á forsíðu Fréttablaðsins í morgun og hann væri heldur ekki á leiðinni yfir Sjálfstæðisflokkinn. Hann geri hins vegar kröfu um ákveðna uppstokkun og hafi til þess breiðan stuðning í pólitísku baklandi sínu og félgöum sínum í Miðflokknum.
Yfirlýsingu Birgis má lesa hér að neðan.
Þessa dagana velta ýmsir fjölmiðlar því fyrir sér hvort ég hyggist segja mig úr lögum við þingflokk Miðflokksins og sé jafnvel á leið yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Af því tilefni vil ég koma eftirgreindu með skýrum hætti á framfæri:
Mér finnst ekki rétt að þeir félagar mínir í þingflokknum sem stigu tímabundið til hliðar og sneru síðan til þingstarfa sinna á nýjan leik gangi að óbreyttu fyrirkomulagi á trúnaðarstörfum sínum fyrir flokkinn vísu. Ég hef komið þeirri skoðun minni á framfæri við formann Miðflokksins að ég telji rétt að boða til flokksráðsfundar eins fljótt og auðið er til þess að fara yfir stöðuna og stokka m.a. upp spilin í verkaskiptingu þingmanna eftir því sem þurfa þykir.
Ég er ekki á leiðinni úr þingflokknum. Ég er þar af leiðandi heldur ekki á leið yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Ég geri hins vegar kröfu um ákveðna uppstokkun og til þess hef ég breiðan stuðning í pólitísku baklandi mínu og einnig hjá félögum mínum í Miðflokknum víðsvegar um landið.