Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill fá upplýsingar um kostnað samræmdra prófa

01.06.2018 - 07:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - RÚV
Menntamálaráðherra hefur óskað eftir því að Menntamálastofnun taki saman upplýsingar um kostnað vegna framkvæmdar á samræmdu könnunarprófunum í íslensku og ensku í vor. Einnig að leitað verði eftir því að fyrirtækið Assessment Systems, sem sá um framkvæmdina, taki þátt í ófyrirséðum viðbótarútgjöldum Menntamálastofnunar.

Þetta kemur fram í svari Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Andra Thorssyni, þingmanni Samfylkingarinnar. Ekki tókst að leggja fyrir samræmd próf í íslensku og ensku fyrir um 4.000 níundu bekkinga landsins í mars þar sem rafræna prófakerfið reyndist ekki þola álagið þegar á reyndi. 

Fram kemur í svarinu að samningur hafi verið gerður við fyrirtækið í desember 2015. Í fyrra hafi verið ákveðið að vinna að útboði fyrir prófakerfi en ákveðið að bíða með það vegna umræðu um að farið yrði í stefnumótun um samræmd könnunarpróf. Menntamálastofnun hafi verið falið að vinna tillögu að fimm ára innleiðingaráætlun og því hafi verið gerður áframhaldandi samningur til eins árs við Assessment Systems. Í ljósi góðrar reynslu hafi ekki verið ástæða til að ætla að svo alvarleg bilun gæti komið upp í prófakerfinu eins og varð við framkvæmd prófanna í vor.