Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vill engan her í Reykjavík

30.10.2012 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Borgarstjórinn í Reykjavík vill að herskipum verði bannað að leggja að í Reykjavíkurhöfn og engar herflugvélar fái að lenda í borginni. Þá eigi Ísland ekki að vera í Atlantshafsbandalaginu.

Jón Gnarr, borgarstjóri, ræddi meðal annars um söngkonuna Lady Gaga og friðarhugmyndir sínar á borgarstjórnarfundi í dag þegar hann fór yfir fjárhagsáætlun borgarinnar og framtíðarsýn sína.

Hann kvaðst sjá Reykjavík í framtíðinni sem friðarborg. Lýsa þyrfti borgina herlaust svæði, þannig að þar væru engin hernaðarumsvif, engin herskip í Reykjavíkurhöfn, engar herflugvélar á Reykjavíkurflugvelli, eða fangaflutningavélar af nokkru tagi.

Hann sagðist hafa fært þetta í tal við ráðherra í ríkisstjórninni. Menn bæru ýmislegt fyrir sig. Bentu á að Ísland væru meðlimur í hernaðarbandalaginu NATO. Þá væri líka allt regluverkið í kringum herflugvélar, það væri nátengt björgunarflugi og væri ákveðinn frumskógur sem þyrfti að greiða úr.

Borgarstjóri telur að Ísland eigi að ganga úr NATO og hefði aldrei átt að ganga í bandalagið.