Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Vill enga gleðigöngu á Ólafsvöku

06.07.2015 - 18:19
Jenis av Rana  Miðflokkurin (m) Färöarna. Nordiska rådets session i Reykjavik 2010.
 Mynd: Wikimedia Commons
Þingmaður kristilega Miðflokksins í Færeyjum leggur til að samkynhneigðum verði meinað að halda gleðigöngu í miborg Þórshafnar á meðan á Ólafsvöku stendur. Ólafsvaka er þjóðhátíð Færeyinga sem haldin er hátíðleg í júlílok ár hvert með miklum skemmtanahöldum og gleði.

Þetta kemur fram á færeysku fréttasíðunni in.fo. Það eru ekki ný tíðindi að Jenis Av Rana, sem er þingmaður kristilega Miðflokksins í Færeyjum, sé á móti réttindabaráttu samkynhneigða. Hann er einmitt maðurinn sem neitaði að setjast til borðs með Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, og eiginkonu hennar þegar þær komu í opinbera heimsókn til Færeyja árið 2010.

Þingmaðurinn segist sannfærður um að meirihluti Færeyinga sé á móti samtökum samkynhneigðra. Hann segir gleðigönguna hafa verið smáa í sniðum í upphafi en sæki hratt í sig veðrið og hún sé nú á góðri leið með að taka Ólafsvöku yfir. Hann leggur til að starfsemi samtakanna verði settar sömu skorður í Færeyjum og starfsemi Sea Shepherd-samtakanna sem berjast gegn hvalveiðum. Fái samtökin til að mynda leyfi til að safna saman fólki á Ólafsvöku skuli það ekki vera í miðbæ Þórshafnar. 

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV