Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vill ekki fresta uppbyggingu Landspítalans

08.05.2013 - 19:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Það þýðir ekki að fresta uppbyggingu Landspítalans og styrkja þess í stað heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, segir yfirlæknir á Egilsstöðum. Það verði að gera hvort tveggja.

Málefni Landspítalans bar ekki oft á góma í kosningabaráttunni í síðasta mánuði. En bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa hins vegar lýst því yfir að áætlanir um nýbyggingar spítalans eigi að endurskoða, og lögð verði áhersla á heilbrigðisþjónustu um allt land. 

Stefán Þórarinsson, lækningaforstjóri HSA, segir ekki hægt að gera annað hvort. „Báðir þessir hlutar heilbrigðiskerfisins eru fjársveltir til margra ára og hafa ekki náð að þróast og það þarf að byggja nýjan Landspítala alveg óháð þeim vandamálum sem við er að glíma annars staðar í kerfinu.“

Stefán var einn þeirra sem kom fram á málþingi um nýjan Landspítala sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík í dag. Hann bendir á að hlutverk Landspítalans sé að taka á móti flóknustu tilfellunum í heilbrigðiskerfinu allsstaðar að, en góð þjónusta annars staðar létti álagið.„Stærri sjúkrahúsin úti á landi, eins og Ísafjörður, Norðfjörður, þau leysa mjög mikið af vandamálum úr sínu umhverfi og það þýðir að sóknin til Landspítalans utan af landi verður markvissari,“ útskýrir Stefán.

Ekki sé hægt að aðskilja uppbyggingu Landspítalans annars vegar og á landsbyggðinni hins vegar. „Nei, það getur það ekki og það er dálítið grunnfærin umræða finnst mér að halda að það sé hægt að bara fresta Landspítalanum og byggja annað upp. Það verður að gera hvort tveggja. Það er svo einfalt.