Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Vill byggja tilbeiðsluhús í Kópavogi

01.04.2015 - 22:01
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Verktaki vill byggja rúmlega tólf hundruð fermetra bænahús fyrir ólík trúarbrögð á Nónhæð í Kópavogi. Hann hefur árum saman reynt að byggja íbúðir á lóðinni en ekki fengið. Kristján Snorrason verktaki hefur átt lóð á Nónhæð í Kópavogi síðan 2002, en áður átti félag Bahá´ía lóðina.

 1265 fermetra hús á þremur hæðum

Kristján hefur árum saman reynt fá leyfi til að byggja íbúðablokkir á lóðinni en ekki fengið, meðal annars vegna andstöðu nágranna.
En nú hefur hann önnur og frumlegri áform. Í febrúar sendi hann byggingafulltrúa Kópavogs erindi um að fá að byggja þar tilbeiðsluhús. Þetta er stór og mikil bygging samkvæmt teikningum, 1265 fermetrar á þremur hæðum og þrjátíu metrar á hæð, þar af 10 metra turn. Þar yrði stór bænarsalur og rými fyrir trúarlega muni og helgirit. Þá myndi einnig vera 600 fermetra safnaðarheimili á lóðinni og 330 bílastæði. Kristján segir áformin samræmast deiliskipulagi. „Ég hef engin viðbrögð fengið, það er bara eins og venjulega, ég fæ aldrei nein viðbrögð frá bænum,“ segir hann. Aðspurður hvort eitthvert trúfélag standi að baki þessu segir hann að eitt hafi sýnt þessu töluverðan áhuga. Hann vildi þó ekki greina frá því hvaða trúfélag það væri. 

 Nóg pláss fyrir ólík trúarbrögð

Hann telur ekkert athugavert við það að byggja óskilgreint tilbeiðsluhús. Þarna verði nóg pláss fyrir ólík trúarbrögð. Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ er málið á frumstigi. Kristján hefur ekki áhyggjur af því að nágrannar komi í veg fyrir þessi áform. „Þeir geta í raun ekkert sagt mikið, því hér er gildandi deiliskipulag og ég þarf bara að fá byggingarleyfi og fara að byggja,“ segir Kristján.

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV