
Vill breyta því hvernig nauðgun er skilgreind
Þetta kemur fram í umsögn Mannréttindaskrifstofu við frumvarp Ólafar þar sem heimilisofbeldi verður lögfest sem sérstakt ákvæði í hegningarlögum. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi fyrir jól.
Mannréttindaskrifstofan veltir því fyrir sér hvers vegna sé ekki talin ástæða til að breyta þessari lagagrein hegningarlaga. Hún bendir á að svokallaður Istanbul-samningur Evrópuráðsins – sem á að fullgilda hér á landi með áðurnefndu frumvarpi – mælir sérstaklega fyrir um að líta skuli til þess í refsilöggjöf um nauðgun hvort samþykki liggi fyrir en ekki hvaða verknaðaraðferðum er beitt.
Athygli vakti þegar Héraðsdómur Suðurlands nefndi það sérstaklega í sýknudómi yfir manni sem hafði verið ákærður fyrir nauðgun að hægt sé að refsa fyrir gáleysisbrot sé til þess sérstök heimild – hana sé ekki að finna í 194. grein hegningarlaga um kynferðisbrot. Maðurinn var sýknaður þar sem héraðsdómur taldi að ásetning hefði skort.
Skrifstofan telur þó, að verði frumvarpið lögfest sé endurspegluð sú afstaða samfélagsins að heimilisofbeldi líðst ekki í lýðræðislegu þjóðfélagi. „Með frumvarpinu er, góðu heilli, farið enn lengra frá þeirri úreltu hugmynd að heimilisofbeldi sé fjölskyldumálefni einstaklinga,“ segir í umsögninni.