Vill banna lausagöngu katta í Kópavogi

Mynd með færslu
 Mynd:

Vill banna lausagöngu katta í Kópavogi

24.06.2013 - 16:09
Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi, lagði til á síðasta bæjarráðsfundi að lausaganga katta yrði bönnuð á varptíma fugla í bænum. Hún óskaði einnig eftir skriflegri greinargerð bæjarlögmanns á hugsanlegum sektarákvæðum ef kattaeigendur fari ekki eftir reglum um kattahald.

Kópavogur samþykkti reglur um kattahald og ketti í september fyrir þremur árum. Þær reglur kváðu meðal annars um að eigendum væri  skylt að láta örmerkja kettina sína og ormahreinsa þá reglulega.  

Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar-og Kópavogssvæðis segir í svari  við fyrirspurn Guðríðar í bæjarráði fyrir helgi að aukið óþol virðist gagnvart kattahaldi og kröfur um afskipti séu sífellt að aukast í almennri umræðu. Í svarinu segir einnig að Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar-og Kópavogssvæðis hafi komið með 27 ketti í Kattholt úr umdæmi eftirlitsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Guðríður sagðist í samtali við fréttastofu ekki trúa því að þetta myndi mælast illa fyrir hjá kattaeigendum, að banna lausagöngu yfir varptímann. Í reglum um kattahald í Kópavogi sé meðal annars kveðið á um að kettir eigi að vera með bjöllu á meðan varptíma stendur. Hins vegar geti ófleygir ungar ekki forðað sér í tæka tíð þótt þeir heyri í bjöllunni. Guðríður segist því vona að kattavinir sýni fuglavinum smá tillissemi og hafi kettina sína inni í orlofi á meðan varptíma stendur og þar til ungarnir eru orðnir fleygir. Tillagan eigi því að tryggja réttindi fugla því allir eigi sinn rétt í Kópavogi.