Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vill austfirska samstöðu á Vestfirði

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes jónsson - RÚV
Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri á Ísafirði, kallar eftir aukinni samstöðu meðal íbúa á Vestfjörðum um sameiningar sveitarfélaga.

Guðmundur ræddi sameiningarmálin í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Þar vísaði hann til sameiningarmála á Austurlandi og sagði aðdáunarvert hvernig sveitarfélögin þar nálgast samtal við íbúanna. „Mér hefur fundist dálítið að hér séu menn að elda sömu súpuna í mörgum herbergjum af misjöfnum efnum með misjöfnun árangri, mismikill afgangur þegar við gætum verið að elda hana í fleiri tilvikum sameiginlega.“

Sporin hræða

Á Austurlandi sé ekki að finna þennan mikla ótta við samþjöppun, að allt valdið færist á fáar hendur. Þvert á móti verði ákvörðunarvaldið fært í byggðirnar og þorpin með svokölluðum heimastjórnum.  „Ég held að það séu allir sammála um það hérna fyrir vestan að við hefðum getað staðið miklu betur að þeim sameiningum sem hafa farið fram hér.“

Guðmundur segir að forsvarsmenn sveitarfélaganna verði að þora að taka samtalið við íbúana.  Íbúaþróun á Vestfjörðum gefi vissulega tilefni til ákveðins ótta. „Við sjáum bara heilu landsvæðin eins og Hornstrandir. Sporin hræða, þar var byggð fyrir ekkert svo löngu síðan. Hver segir að það muni ekki líka verða þróunin hér. Þetta er eðlilegur ótti.“

Íbúar þurfa hins vegar að hefja sig upp fyrir slíkt.  Varast beri að framreikna hluti með því að skoða bara fortíðina enda segi það sig sjálft að ef Vestfirðir myndu þróast eins næstu áratugi líkt og undanfarna áratugi þá yrði framtíðin dökk. „Ef við ætlum að halda einhverju lofti í lungunum á okkur, ef við ætlum að vera pínu keik og teinrétt, þá verðum við alla vega að trúa að við séum að fara í jákvæðar áttir en ekki neikvæðar.“