Vill aukið sjálfstæði gagnvart framkvæmdaaðila

01.07.2018 - 19:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sveitarstjórnarmaður í Reykhólahreppi telur óeðlilegt að sveitarfélög séu ekki sjálfstæð gagnvart framkvæmdaraðilum eins og Vegagerðinni við skipulagsbreytingar. Reykhólahreppur þáði styrk frá Sigurði Gísla og Jóni Pálmasonum til að kosta óháð mat á leiðarvali.

Vegagerðin leggur línurnar ein

Sveitarstjórn Reykhólahrepps skoðaði tvær leiðir fyrir hinn umdeilda Vestfjarðaveg um Gufudalssveit. Leið Þ-H um Teigsskóg sem er tillaga Vegagerðarinnar og leið D2 sem er tillaga Skipulagsstofnunar, veldur minni umhverfisáhrifum en er mun dýrari en leið Þ-H. Í byrjun mars valdi sveitarstjórn leið Þ-H um Teigsskóg fyrir aðalskipulagsbreytingarnar. Fjórir greiddu atkvæði með ákvörðuninni en Karl Kristjánsson var á móti þeirri leið. Í bókun Karls við ákvörðunartökuna gagnrýnir hann að Vegagerðin hafi ein komið að því að hanna og útfæra veglínurnar sem valið stendur um og engir hlutlausir fagaðilar komið að verkinu með aðra sýn.

Buðust til að fjármagna óháð mat

Vegna þessarar bókunar barst sveitarfélaginu bréf frá Hagkaupsbræðrum, Sigurði Gísla og Jóni Pálmasonum, þar sem þeir buðust til að styrkja sveitarfélagið til að fá þetta óháða mat. Sveitarstjórn tók boðinu og fékk norsku verkfræðistofuna Multiconsult til að rýna leiðarval um Gufudalssveit. Niðurstöðurnar voru kynntar í vikunni en Multiconsult leggur til aðra leið en Vegagerðin, leið um Reykhóla með 800 metra brú yfir Þorskafjörð.

Mikill kostnaður fyrir fámennt sveitarfélag

„Þetta snýst um sjálfstæði sveitarfélaga gagnvart framkvæmdaraðila.  Og eins og í þessu tilviki fámenns sveitarfélags gagnvart öfluguri ríkisstofnun eins og Vegagerðinni,“ segir Karl Kristjánsson. Hann bendir á að Vegagerðin greiðir fyrir þá vinnu sem að skipulagsbreytingarnar byggja á. Karl telur að ef sveitarfélagið hefði ekki þegið styrk Hagkaupsbræðra hefði sveitarfélagið þurft að leita til Vegagerðarinnar um að fjármagna óháð mat á þeirra eigin vinnu, eða nota stóran hluta af framkvæmdafé sveitarfélagsins til að borga matið. „Og þessir fjármunir Hagkaupsbræðra fara bara í að aðstoða sveitarfélagið við það. Þeir hafa ekki skipt sér að þessu á neinn annan hátt, eða reynt að hafa áhrif á niðurstöðuna, sem gat alveg verið sú að staðfesta niðurstöðu Vegagerðarinnar,“ segir Karl.

Óeðlilegt fyrirkomulag

Karl telur óeðlilegt hvernig sveitarfélög eru háð framkvæmdaraðilum við skipulagsbreytingar. Einn hreppsnefndarmanna óttaðist tortryggni með því að þiggja styrk Hagkaupsbræðra en Karl er ekki á því. „Það er hins vegar nauðsynlegt að breyta þessu fyrirkomulagi. Að sveitarfélagið kosti sjálf sín skipulagsmál. En þá þarf líka jöfnunarsjóður sveitarfélaga að koma að því gagnvart minni sveitarfélögum svo þau geti gert það. Það þarf að breyta þessu fyrirkomulagi, þetta er að sumu leyti óeðlilegt og slæmt að hafa þetta svona.“

 

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi