Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vill aukið eftirlit með hagsmunaskráningum

12.04.2018 - 19:46
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Efla þarf eftirlit með hagsmunaskráningu þingmanna, segir forsætisráðherra. Margt gagnlegt megi draga af skýrslu sendinefndar Samtaka ríkja gegn spillingu. Nefndin furðar sig á því að þrátt fyrir að ríkisstjórnir og ráðherrar hafi hér hrökklast frá völdum, hafi íslensk stjórnvöld lítið gert til að sporna við spillingu og hagsmunaárekstrum.

Sendinefnd GRECO kom hingað til lands í október til að fjalla um varnir gegn spillingu hjá lögreglu og æðstu handhöfum framkvæmdavalds. Æðstu handhafarnir teljast vera ráðherrar, aðstoðarmenn þeirra og ráðuneytisstjórar. Nefndin skoðaði viðbrögð við bankahruninu og afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar úr embætti forsætisráðherra eftir að Panamaskjölin komu í ljós. Þá er það nefnt að eftirmaður hans hafi komið við sögu í Panamaskjölunum auk um 600 annarra íslenskra eigenda eigna í útlöndum. Þá er einnig skoðuð viðbrögðin við mótmælum gegn því að dæmdir barnaníðingar fengu uppreist æru. Ennfremur eru skoðuð mál sem varða brot lögreglumanna í starfi. 

Sendinefndin segir í skýrslunni að það sé sláandi hversu lítið íslensk stjórnvöld hafi gert til að sporna við spillingu og hagsmunaárekstrum þótt hneykslismál hafi leitt til stjórnarslita og afsagna ráðherra síðustu ár. Þetta kemur fram í skýrslu sendinefndar GRECO, samtaka ríkja gegn spillingu.

Hvað finnst forsætisráðherra um að íslensk stjórnvöld fái þessa einkunn frá GRECO? 

„Ég held að íslensk stjórnvöld geti tekið margt gagnlegt út úr þessari skýrslu. Auðvitað hefur margt verið gert á undanförnum áratug. Frá því ég kom inn á þing þá hefur mjög margt breyst. Hér hafa verið settar reglur um hagsmunaskráningu, hér hafa settar siðareglur sem ekki voru til staðar fyrir hrun. Hins vegar liggur það algerlega fyrir að mínu leyti að það þarf að gera betur. Ég skipaði starfshóp strax í upphafi þessa árs sem fékk eiginlega það verkefni að skoða þessi mál sem GRECO-nefndin er núna að tjá sig um,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

Þurfi aðgerðir vegna tengsla þingmanna við atvinnulíf

Í skýrslunni er hvatt til þess að hert verði á siðareglum meðal annars þegar kemur að gjöfum og öðrum fríðindum sem og samskiptum við þriðju aðila sem vilja hafa árhif á störf ráðamanna. Grípa þurfi til aðgerða varðandi tengsl þingmanna við atvinnulíf.

Þá segir að embætti forsætisráðherra hafi lagt áherslu á að auka vitund um siðareglur og veita ráðgjöf en brýnt sé að koma á trúverðugum verkferlum til að tryggja að farið sé eftir siðareglum.  Greco leggur til að stjornvöld móti stefnu um það hvernig tekið sé á hagsmunaárekstrum þegar ráðamenn eigi í hlut. Sérstaklega er hvatt til þess að hagsmunaskráning ráðamanna verði efld þannig að hún taki til eigna sem vísvitandi séu skráðar á nafn annarra til að mynda maka. 

Þá segir nefndin að það sé jákvæð breyting að nú séu íslenskir ráðherrar farnir að segja af sér. Þetta megi þó ekki vera einu viðbrögðin sem gripið sé til þegar  um sé að ræða alvarlegan misbrest í störfum. 

 

„Þetta horfir til betri vegar og sumt hefur þegar verið gert. Ég vil nefna það t.a.m. að ráðherrar opnuðu dagbækur sínar núna nýlega, þar sem fram kemur með hvaða hagsmunaaðilum ráðherrar funda á hverjum tíma. Það er eitt af því sem er gerð athugasemd við í þessari skýrslu. Ég held að við eigum fremur að horfa til þess sem við erum að gera og hvernig við ætlum að haga þessum málum til framtíðar,“ segir Katrín.

En þarf einhvers konar viðurlög eða að einhverjar afleiðingar séu við að fara ekki eftir siðareglum? 

„Ja, það er rætt í þessari skýrslu. Ég hef talið og ég hef fylgst töluvert með umræðu siðfræðinga hér á landi um þessi mál og þar hefur ekki verið rætt um það að viðurlög séu endilega heppileg þegar kemur að siðareglum,“ segir Katrín.

Hins vegar mikilvægt að siðareglur séu lifandi í hugum þeirra sem þær gilda um. Katrín telur að bæta þurfi eftirfylgni með hagsmunaskráningu. „Að það sé s.s. reglulega fylgst með því að hagsmunaskráning sé uppfærð,“ segir Katrín.

Greco hvetur ennfremur til þess að lögreglan og Landhelgisgæslan fái aukið sjálfstæði frá stjórnmálamönnum. Sjálftæð stofnun eigi að hafa eftirlit með störfum lögreglu. Einnig sé óheppilegt að yfirmenn í lögreglunni séu skipaðir til fimm ára. Það auki hættuna á pólitískum þrýstingi.