Vill að stjórn Dróma víki

07.05.2012 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Ragnar Hall hæstaréttarlögmaður krefst þess að héraðsdómur víki slitastjórn Frjálsa fjárfestingabankans frá störfum. Hann gagnrýnir vinnubrögð stjórnarinnar harðlega.

Slitastjórnir SPRON og Frjálsa fjárfestingabankans eru skipaðar sama fólkinu. Hið sama gildir um hlutafélagið Dróma, sem tók við öllum lánum þessara lánastofnana eftir hrun. Drómi annast innheimtu fyrir slitastjórnirnar, en vinnubrögð félagsins hafa verið harðlega gagnrýnd.

Hjón sem unnu fyrra gengislánamálið svokallaða í Hæstarétti í febrúar í fyrra voru með ólögmætt húsnæðislán hjá Frjálsa fjárfestingabankanum. Hjónin unnu aftur mál gegn bankanum fyrir Hæstarétti í febrúar á þessu ári, þar sem bankanum var óheimilt að reikna Seðlabankavexti á lánið aftur í tímann. Þrátt fyrir þetta hefur slitastjórnin ekki enn fengist til að endurreikna lán hjónanna þótt lögmaður þeirra, Ragnar H. Hall, hafi ítrekað farið fram á það. Hann hefur nú krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur víki slitastjórn bankans frá störfum.

„Það eru liðin þrenn mánaðamót frá því að dómur gekk í hæstarétti um það hvernig bæri að reikna út lánin sem umbjóðendur mínir höfðu tekið hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum. Ég hef sent mína útreikninga á stöðunni til bankans fyrir löngu síðan, ég hef óskað eftir fundum og reyndar fengið fundi með slitastjórninni þar sem þetta hefur verið rætt, en hún er aldrei tilbúin með nein svör um það hvernig slitastjórninn telur að kröfurnar standi,“ segir Ragnar.

Ragnar segir umbjóðendur sína og eignir þeirra í gíslingu vegna tregðu slitastjórnarinnar, þar sem þau viti ekki enn hver skuldastaða þeirra sé, en hann telur bankann skulda þeim milljónir króna. Ragnar gætir hagsmuna fleiri skuldara í sömu stöðu, og segir óþolandi það óvissuástand sem þeim sé boðið upp á. Þá hafa fjölmargar kvartanir borist Umboðsmanni skuldara vegna Dróma. Ragnar svarar því ekki hvort hann telji að slitastjórnin verði rekin. „En ég vonast til þess að þetta geti orðið til þess að lagt verði fyrir slitastjórnina að klára þessi verkefni án ástæðulausrar tafar.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi