Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill að loftslagsmálin verði flaggskip Íslands

12.09.2018 - 19:54
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. - Mynd: RÚV / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld að hún sæi fyrir sér að umhverfis- og loftslagsmál verði eitt af flaggskipum utanríkisstefnunnar, líkt og jafnréttismálin séu þegar orðin.

„Við Íslendingar höfum sett okkur það markmið að verða kolefnishlutlaus ekki seinna en árið 2040 og þessir fyrstu áfangar sýna gjörla að okkur er full alvara með því verkefni. Ég sé fyrir mér að umhverfis- og loftslagsmál verði eitt af flaggskipum okkar utanríkisstefnu, rétt eins og kynjajafnréttismálin eru þegar orðin, og Ísland, þó að við séum ekki stór, geti þar með haft áhrif til góðs í alþjóðasamfélaginu,“ sagði forsætisráðherra í ræðu sinni. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem ríkisstjórnin kynnti í vikunni var greint frá ýmsum leiðum sem fara á til að tryggja að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. 

Segir að hvergi mega slaka á í jafnréttisbaráttu

Katrín benti í ræðu sinni á að Ísland hafi nú í níu ár í röð verið í efsta sæti á lista World Economic Forum sem það land sem stendur sig best í kynjajafnrétti. „Þar megum við hins vegar hvergi slaka á.“ Innleiðing jafnlaunavottunar standi yfir og að fyrirtæki og stofnanir þurfi að hafa hraðar hendur ef hún á að nást fyrir áramót. „Sömuleiðis þurfum við að vera meðvituð um að þessi listi mælir til dæmis ekki kynbundið ofbeldi. Þess vegna hefur ríkisstjórnin sett þau mál í algjöran forgang.“ Fullgilding Istanbul-sáttmálans um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi síðasta vor hafi verið mikilvægt skref í rétta átt. Þá greindi forsætisráðherra frá því að fyrirhugað sé að halda alþjóðlega ráðstefnu hér á landi þar sem sjónum verður beint að #églíka-byltingunni.

Meiri kostnaður sjúklinga á Íslandi en í nágrannalöndum

Heilbrigðisþjónustan er fyrirferðamikil og sá málaflokkur sem landsmenn hafa sett í forgang samkvæmt ýmsum könnunum. „Hér á landi hafa sjúklingar þurft að greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustu en annars staðar á Norðurlöndum. Fyrstu skrefin í því að lækka þennan kostnað voru stigin nú um mánaðamótin þegar dregið var úr kostnaði aldraðra og öryrkja við tannlækningar sem er löngu tímabær og mikilvæg aðgerð.“ Forsætisráðherra sagði að haldið yrði áfram á sömu braut. Í ræðu sinni nefndi Katrín einnig að ýmis teikn væru á lofti um að andlegri heilsu, sérstaklega ungs fólks, hafi hrakað. Því leggi ríkisstjórnin mikla áherslu á geðheilbrigði og nú sé unnið að því að auka aðgengi að sálfræðingum um allt land.

Hægt er að hlýða á ræðuna í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.