Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill að lífeyrissjóðir auki upplýsingaflæði

20.07.2018 - 09:15
Hallgrímur Óskarsson
verkfræðingur
 Mynd: kastljós
Hallgrímur Óskarsson verkfræðingur, hefur undanfarið unnið að skýrslu um ávöxtun lífeyrissjóða. Hann segir að upplýsingaflæði lífeyrissjóða þurfi að vera gagnsærra og að ávöxtunartölur lífeyrissjóða hér á landi eigi að vera aðgengilegri almenningi, þannig myndist aukin samkeppni milli lífeyrissjóða og fleiri sjóðir standi sig betur. 

„Allavega er sú röksemd mjög sterk að maður á að fá að vita hver ávöxtunin er. Því þá getur maður lagt auka til hliðar ef maður er óheppin að vera í lífeyrissjóð sem er að standa sig illa,“ segir Hallgrímur sem var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1. 

Hann segir að ávöxtunartölur lífeyrissjóða birtist reglulega erlendis. „Að það sé hægt að fylgjast með ávöxtunartölum, sjá hvar minn sjóður er staddur. Þetta er víða gert erlendis, Sviss og víðar. Þá birtast þessar tölur bara reglulega, oft vikulega, og skapar mikla samkeppni. Þetta mun bara leiða til þess að fleiri sjóðir standa sig vel, og að almenningur taki upplýstari ákvörðun um hvar hann vill vera og hvort að lífeyrisréttindi eru í góðum málum eða ekki.“  

Þá talar Hallgrímur yfir því að lífeyrissjóðir hér á landi taki upp frjálsa aðild. „Ég er að hvetja til þess að almenningur geti haft gögn sem eru þannig að séð hversu mikið ávöxtun er hjá hverjum einasta sjóð, borið saman og skipt. Ég er talsmaður þess að taka upp frjálsa aðild þannig að allir geti verið í hvaða sjóð sem er. Að það sé ekki niður njörvað í einhverja launasamninga að Jón Jónsson verði að vera í þessum sjóð. Þá eru sjóðir að fá ákveðna áskrift og þá slaknar oft á og það er ekki heilbrigt umhverfi,“ segir Hallgrímur.

Hann segir jafnframt að lífeyrissjóðir geti verið óábyrgir í auglýsingaherferðum sínum og að fjármálaeftirlitið treysti á Neytendastofu. „Neytendastofu treystir á almenning. En almenningur hefur ekki aðgang að neinum gögnum. Þetta er ekki nógu gagnsætt. Hér er komið suðupottur eða tómarúm, þar sem að eftirlitsaðilar eru að bíða eftir að almenningur komi með athugasemdir en almenningur hefur ekki gögn til að geta komið með athugasemdir,“ segir Hallgrímur. „Þess vegna hefur smátt og smátt myndast umhverfi þar sem sumir lífeyrissjóðir leyfa sér að segja ýmislegt. Segjast vera ótrúlega góður á einhverju sviði eða ótrúlega góðir miðað við einhver landsvæði,“ segir Hallgrímur.

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV