Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill að borgin bjóði þolendum bætur

16.03.2018 - 17:52
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Héraðsdómur Reykjaness féllst í dag á áframhaldandi fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir starfsmanni barnaverndar, sem grunaður er um kynferðisbrot gegn minnst átta börnum á tíu ára tímabili. Sævar Þór Jónsson, réttargæslumaður þriggja þolenda, segir líklegt að Reykjavíkurborg sé skaðabótaskyld vegna mistaka sem gerð voru þegar systir eins brotaþola tilkynnti um brot mannsins til velferðarsviðs borgarinnar árið 2008. Brot mannsins gegn einu barnanna stóðu yfir til ársins 2010.

„Eins og þetta lítur út núna þá voru verkferlar ekki í lagi, sem þýðir að hefðu þeir verið í lagi þá eru miklar líkur á því að það hefði verið hægt að grípa inn í fyrr inn í málið og koma í veg fyrir brot gagnvart mínum umbjóðanda sem brotið var á frá árinu 2004-2010. Það hefði munað þarna tveimur árum sem skiptir verulega miklu máli í svona alvarlegum málum," segir Sævar í samtali við fréttastofu.

Munu krefjast bóta

Sævar segir að reiðin út í kerfið sem braust út í kjölfar málsins vera skiljanlega. Umbjóðendur hans ætla að krefjast bóta gagnvart borginni ef starfsmaðurinn reynist brotlegur fyrir dómi. „Ef viðkomandi starfsmaður reynist brotlegur er alveg klárt að borgin ætti að sýna sóma sinn í því að bjóða þeim, sérstaklega þessum umbjóðanda mínum sem brotið var á til ársins 2010, tillögu að einhverskonar bótum.“ Sævar segir að ef borgin bjóði ekki fram bætur að fyrrabragði muni þeirra verða krafist.

Finnst skorta formlega afsökunarbeiðni

Sævari finnst skorta afsökunarbeiðni til umbjóðenda hans vegna málsins. „Ég vil láta rannsókn málsins ganga fyrir, í kjölfarið verða aðilar að meta það hvar ábyrgðin liggur. Það að verkferli séu ekki í lagi þegar varðar þennan málaflokk gengur ekki upp. Það er engin formleg afsökun komin fram. Það er það sem ég ætlast til að menn meti í kjölfarið þegar að rannsókn lýkur að menn komi með formlega afsökunarbeiðni.“

Sævari finnst borgin og barnavernd ekki taka fulla ábyrgð á málinu. „Þeir viðurkenna að það hafi verið gerð mistök þarna 2008 sem felast í því að einhver ótilgreindur starfsmaður átti að hafa tekið við þessum skilaboð en ekki komið þeim áleiðis. Talað um að það sé þjónustuver borgarinnar sem taki við símtölum en ég vil taka það fram að það er ennþá þannig í dag. Þannig það hefur nú lítið breyst hvað það varðar. Það er búið að viðurkenna það í þessari skýrslu að verkferli voru ekki í lagi. Menn verða að taka ábyrgð á því. Lögregla hefur gefið út skýrslu og tekið ábyrgð. Barnaverndarnefnd gerir það að veikum mætti að mínu mati í þessu máli,“ segir Sævar.