Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vill að bærinn yfirtaki eign vegna Eden-reits

03.03.2018 - 14:10
Mynd með færslu
 Mynd: hveragerdi.is
Eigandi garðplöntusölunnar Borgar vill að Hveragerðisbær yfirtaki eign sína fallist bæjaryfirvöld ekki á þá kröfu hans að lækka nýbyggingar á tveimur lóðum á Eden-reitnum niður í eina hæð. Hann telur að nýbyggingarnar muni hafa veruleg áhrif á rekstur hans og valda honum gríðarlegu fjártjóni.

Eigandi Borgar hefur staðið í deilum við bæjaryfirvöld vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á Eden-reitnum.

Hann kærði deiliskipulag á reitnum til úrskurðarnefndar um umhverfis-og auðlindamála og í kærunni kom fram að framkvæmdirnar myndu nánast eyðileggja framtíðarmöguleika lóðarinnar hans og því væri grenndarréttur hans ekki virtur.  Úrskurðarnefndin vísaði kærunni frá þar sem hún barst þremur dögum of seint.

Hann hefur nú ákveðið að gera bænum lokatilboð - að lækka nýbyggingar á tveimur lóðum niður í eina hæð eða yfirtaka eign hans í heild sinni gegn fullu verði. 

Deilan snýst um skuggvarp sem eigandi Borgar telur að verði þess valdandi að hann verði að leggja rekstur sinn niður. „Bærinn hefur þó neitað því að fyrirhugaðar byggingar myndu valda miklu skuggvarpi inn á lóð en þó er ekki að sjá að þeir hafi kannað það neitt sérstaklega. Virðist vera sem bærinn fullyrði út í loftið hvað það varðar,“ segir í bréfi frá lögmanni eigandans til bæjaryfirvalda.  

Bæjarráð Hveragerðisbæjar tók bréfið fyrir á fundi sínum á fimmtudag og ákvað að hafna þessu tilboði. Í bókun ráðsins kemur fram að það telji sig nú þegar hafa komið til móts við fyrri athugasemdir með því að lækka húsin úr þremur hæðum í tvær og úr tveimur hæðum í eina.  „Skuggavarp er óverulegt nema í mars kl. 17:00. Skuggavarp í júní er vart sjáanlegt. Skipulag hefur verið samþykkt á lóðunum og framkvæmdir eru við það að hefjast.“

Þá telur bæjarráð að bygging tveggja hæða hús sem eru sambærileg að hæð og önnur hús í hverfinu hafi ekki skaðleg áhrif á rekstur gróðurstöðvarinnar. „Og að sambýli atvinnurekstrar og íbúða geti verið áfram eins og verið hefur.“