Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilji til að viðhalda byggð í Árneshreppi

28.12.2018 - 22:00
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir að vilji sé til að viðhalda byggð í Árneshreppi og að verið sé að hrinda öflugri byggðaáætlun í framkvæmd, ekki sé þó unnt að flýta vegaframkvæmdum frekar. 

 

Ekki hægt að flýta framkvæmdum frekar

Verkefnastjórn Brothættra byggða í Árneshreppi sendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ákall um að ráðast í brýnar samgöngubætur, eins og á Veiðileysuhálsi, en íbúar óttast að byggð fari í eyði ef ekkert verður að gert. Sigurður Ingi segir að verkefninu hafi verið flýtt miðað við fyrstu drög að samgönguáætlun. „Svona í ljósi þess sem við höfum verið að horfast í augu við, umferðarþungann sem orðið hefur hér, og þessi alvarlegu slys, sem við höfum verið að leggja áherslu á að koma í veg fyrir, þá getum við ekki gert allt í einu en erum að flýta þessu verkefni eins og hægt er,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. 

Gagnrýnir að velja þurfi á milli samgöngumáta

Framkvæmdir á Veiðileysuhálsi eru taldar lykilþáttur í að tryggja heilsárssamgöngur til og frá hreppnum en ekki á að ráðast í framkvæmdir fyrr en árið 2022. Þá hefur verið kallað eftir því að einangrun hreppsins verði rofin og mokað frá janúar fram í mars. Sigurður Ingi segir engin áform um að breyta því fyrirkomulagi. „Vegna þess hvernig samgöngum er háttað á vegum þá hafa menn styrkt flug til að tryggja einmitt samgöngur á þennan stað,“ segir Sigurður Ingi. Oddviti Árneshrepps gagnrýnir að velja þurfi á milli samgöngumáta. „Ég skil ekki af hverju það á endilega bara að einn möguleiki fyrir fólk sem býr á þessum stöðum eins og við gerum. Það vita það allir sem vilja vita að Vestfirðir eru aftarlega á merinni hvað varðar aðra landshluta og það virðist ekki eiga að laga það neitt.“

Segir úrræði í nýrri byggðaáætlun

Sigurður Ingi segir að það sé vilji til að viðhalda byggð í Árneshreppi og bendir á að samkvæmt nýrri stefnumótandi byggðaáætlun hafi sveitarfélagið fengið styrk fyrir verslun. „Ég geri mér vel grein fyrir því að þetta er viðkvæm byggð, eins og því miður of margar á íslandi ennþá. En við erum að leggja af stað með nokkuð öfluga byggðaáætlun, fullt af verkefnum og tólum í verkfærakistunni og við munum beita þar sem við á.“