Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja vistvænni samgöngur með Borgarlínu

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson/RÚV
Píratar vilja tryggja öllum Reykvíkingum húsnæði á viðráðanlegu verði og styðja betur við Borgarlínu en gert er í núverandi skipulagsáætlunum. Þeir vilja stytta vinnuvikuna og gera Reykjavík að aðlaðandi búsetukosti fyrir ungt fólk.

Píratar kynntu stefnumál sín fyrir borgarstjórnarkosningarnar í dag. Þeir segjast ætla að vera málsvarar ungs fólks, og auka áhrif og lífsgæði þeirra. „Við Píratar leggjum alltaf gríðarlega mikla áherslu á það að auka traust almennings á stofnunum samfélagsins og stjórnmálum almennt. Þetta ætlum við að gera með því að valdefla almenning, auka gagnsæi og hleypa almenningi að ákvarðanatöku,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík. „Að sama skapi leggjum við gríðarmikla áherslu á málefni ungs fólks og að skapa hér nútímalegt og spennandi samfélag, sem er samkeppnishæft við stórborgir nágrannalandanna.“

Þá eru málefni barnafjölskyldna þeim hugleikin. Meðal annars vilja Píratar stytta vinnuvikuna. „Og við þurfum að styrkja menntakerfið og huga að dagvistunarmálum.“

Þeir tala líka fyrir aldursvænu samfélagi, ekki bara unga fólksins. „Einnig leggjum við mikla áherslu á málefni jaðarsettra hópa, það verður að auka samráð við jaðarsetta hópa eins og fatlað fólk, innflytjendur og fólk í fátækt,“ segir Dóra Björt.

Píratar vilja tryggja framboð íbúða á viðráðanlegu verði í borginni. Í samgöngumálum leggja þeir höfuðáherslu á Borgarlínu, og vilja styðja betur við hana en gert er í núverandi skipulagsáætlunum. Markmiðið er að íbúar í öllum hverfum borgarinnar hafi raunhæft val um vistvæna samgöngumáta. „Reykjavíkurborg mengar meira en stór iðnaðarborg í Bandaríkjunum, og þetta er gríðarlega stórt mál. Þess vegna viljum við styðja við þéttingu byggðar, við viljum styðja við borgarlínuna og breyta þessu ferðamunstri sem hefur verið að þróast hérna með einkabílnum.“

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV