Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vilja virkja bæjarlækinn

04.02.2015 - 21:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Það færist sífellt í vöxt að bændur sjái sér hag í því að virkja bæjarlækinn, segir framleiðandi túrbína fyrir litlar vatnsaflsvirkjanir. Sveitarstjórn Dalvíkur vinnur að úttekt á virkjanakostum í ám í sveitarfélaginu með það að markmiði að bændur geti sett þar upp smávirkjanir.

Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar hefur fengið verkfræðifyrirtækið Mannvit til að kanna mögulega virkjanakosti í nokkrum ám í sveitarfélaginu. Gert er ráð fyrir að niðurstaðan verði kynnt bændum á næstu vikum.

Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, segir að á árum áður hafi verið algengt að bændur í Svarfaðardal virkjuðu bæjarlækinn og þegar mest var hafi um tólf smávirkjanir verið í dalnum: „Hér eru æði mörg minni fallvötn sem hægt er að virkja án þess að það þurfi að fara í umhverfismat eða tilkynna það sérstaklega til Skipulagsstofnunar".

Á bænum Árteigi í Köldukinn hafa verið framleiddar túrbínur fyrir smávirkjanir um árabil og þar finna menn fyrir aukinni eftirspurn.

„Það eru alltaf einhverjar þrjár fjórar á hverju ári sem við smíðum og nú er í rauninni listinn frekar langur. Það eru í raun einhverjar fjórar sem við erum komnir með pantanir á", segir Eiður Jónsson túrbínusmiður.

Eiður segir að svo virðist sem sífellt fleiri bændur sjái sér hag í að setja upp smávirkjanir og undir það tekur Bjarni: „Ég tala nú ekki um ef að þeir geta selt raforku inn á landsnetið líka. Auk þess eru margir sem hafa verið að byggja upp hérna í sveitinni, menn hafa verið að stækka fjós og byggja ný fjós og menn hafa verið að nota heilmikla raforku víða".