Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Vilja verðtrygginguna burt

08.11.2011 - 18:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Rétt rúm 80% svarenda í nýrri könnun eru mjög eða frekar hlynnt afnámi verðtryggingarinnar. Þá fær mögulegt framboð Hagsmunasamtaka heimilanna nokkurn meðbyr í könnuninni. Könnunin var unnin af Capacent Gallup fyrir Hagsmunasamtök heimilanna.

Spurt var: Ert þú hlynntur eða andvígur afnámi verðtryggingar?

80,4% svarenda sögðust mjög eða frekar hlynnt afnámi hennar en aðeins tæp 7% andvíg. Þá var tæpur helmingur aðspurðra hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Þá var spurt: Ert þú hlynntur eða andvígur almennri niðurfærslu höfuðstóls íbúðalána.
79% svarenda voru mjög eða frekar hlynnt niðurfærslu, rúm 11% segjast hlutlaus en 8 komma 9% sögðust andvíg.

Þá var athugaður stuðningur við mögulegt framboð Hagsmunasamtaka heimilanna til Alþingis.

Spurt var: Setjum sem svo að Hagsmunasamtök heimilanna myndu bjóða fram í næstu Alþingiskosningum. Er líklegt eða ólíklegt að þú myndir kjósa samtökin?

31,2% sögðu öruggt, mjög eða frekar líklegt að þeir kysu samtökin. 22% svöruðu hvorki né en 46,7% segja það frekar, mjög eða öruggt að þeir kysu ekki samtökin.

Könnunin var lögð fyrir á tímabilinu 27. október til 4. nóvember. Úrtakið var 1350 manns en svarhlutfall var tæp 62%