Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vilja vald yfir vellinum

Fimmtán þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram frumvarp á Alþingi, sem myndi færa skipulagsvald yfir Reykjavíkurflugvelli frá Reykjavíkurborg til Alþingis. Þetta hefur vakið litla hrifningu hjá borgaryfirvöldum og innanríkisráðherra segist ekki munu styðja frumvarpið að óbreyttu.

Það er þó búið að afgreiða það úr umhverfis- og samgöngunefnd og er tilbúið til umræðu í þinginu. Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að flugvöllurinn sé eign allrar þjóðarinnar og fyrir því séu fordæmi að Alþingi fari með skipulagsvald á mikilvægum, afmörkuðum svæðum, s.s. Keflavíkurflugvelli og þjóðagarðinum á Þingvöllum. Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, hefur sagt að hún muni ekki greiða atkvæði með frumvarpi fimmtánmenninganna að óbreyttu: „Ég tel mjög varhugavert að stíga skref eins og Höskuldur er að gera þarna og ég get ekki séð fyrir mér að þetta sé nein niðurstaða sem sátt verði um“, sagði Ólöf í fréttum RÚV á þriðjudag. 

Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata í borgarstjórn, segir ekki koma til greina að skerða skipulags- og mannvirkjavald Reykjavíkurborgar með þessum hætti - og undir það tekur Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna í borginni. Halldór Auðar Svansson og Höskuldur Þórhallsson, einn flutningsmanna tillögunnar tókust á um málið í Kastljósi.

thoraa's picture
Þóra Arnórsdóttir
Fréttastofa RÚV