Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja upphitaðan þyrlupall og betra viðbragð á Ísafirði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar vill að upphitaður og upplýstur þyrlupallur verði gerður á Ísafjarðarflugvelli. Til þess að stytta viðbragðstíma leggur bæjarráðið það til við bæjarstjórn Ísafjarðar að aðstaða verði fyrir þyrlu á flugvellinum.

Þá óskar bæjarráðið eftir því að skoðað verði hvort hægt sé að staðsetja þyrlu á Vestfjörðum þegar spáð er aftakaveðri eins og í síðustu viku.

Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri á þriðjudagskvöld 14. janúar og annað í Súgandafjörð handan Suðureyrar svo flóðbylgja myndaðist og gekk á land í bænum.

Mikið eignatjón varð í Flateyrarhöfn sem ekki var varin ofanflóðum. Bátarnir sem voru í höfninni eyðilögðust nær allir. Eitt íbúðarhús varð fyrir flóðinu og grófst stúlka í flóðinu. Henni var bjargað. Á Suðureyri flæddi sjór í kjallara húss. Enn er verið að meta tjónið bæði á Flateyri og á Suðureyri.

Bæjarráðið væntir þess að fá stuðning frá stjórnvöldum við þá mikla starf sem er fyrir höndum við uppbyggingu atvinnulífs á Flateyri. Nauðsynlegt er að byggja upp útgerð á ný og treysta Lýðskólann í sessi.

Þakka góð viðbrögð björgunarfólks

Á fundi bæjarráðsins í gær voru þakkir færðar viðbragðs- og björgunaraðilum fyrir starf þeirra. Bæjarráðið lýsti sérstakri ánægju með fyrirhyggju Landhelgisgæslunnar sem færði varðskipið Þór á Ísafjörð gagngert til þess að bregðast við hugsanlegum afleiðingum aftakaveðursins sem gekk yfir síðustu vikur.

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, hefur lagt áherslu á að nýtt hættumat vegna ofanflóða verði gert á Vestfjörðum. Bæjarráðið tók í sama streng á fundi sínum og vill að bæjarstjórn óski eftir því við Ofanflóðasjóð að gert verði nýtt hættumat fyrir Flateyri og úttekt á endurbótum á varnargörðum þar.

Einnig þarf að fara fram öryggisáhættumat fyrir alla byggðarkjarna sveitarfélagsins Ísafjarðar í samráði við heimafólk og viðbrgaðsaðila. Í því mati verði möguleg áhætta dregin upp og viðbrögð við þeim kortlögð og skráð.

Bæjarráðið vill að Ofanflóðasjóður taki þátt í að verja hafnarmannvirki á Flateyri fyrir snjóflóðum. Þá vill bæjarráðið að Vegagerðin endurskoði sjóvarnir á Suðureyri.

Ísafjarðarbær varð til árið 1996 við sameiningu sex sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum. Þá sameinuðust Þingeyrarhreppur, Mýrarhreppur, Mosvallahreppur, Flateyrarhreppur, Suðureyrarhreppur og Ísafjarðarkaupstaður. Um það bil helmingur allra íbúa á Vestfjörðum býr innan sveitarfélagsins. Í byrjun síðasta árs var íbúafjöldinn 3.800 manns.