Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja tryggja öruggt húsnæði fyrir alla

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Það þarf að takast á við vaxandi vanlíðan skólabarna og tryggja borgarbúum öruggt húsnæði, segir Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík. 

Flokkur fólksins kynnti baráttumál sín í Reykjavík í dag. Flokkurinn vill efla leik og grunnskóla borgarinnar, tryggja öryrkjum og fötluðum jafnræði á öllum sviðum samfélagsins og koma á fót hagsmunafulltrúa fyrir aldraða. En fyrst og fremst vill flokkurinn tryggja öruggt húsnæði fyrir alla.  

„Við erum flokkurinn sem langar til að taka utan um fólkið í borginni sem nær ekki endum saman, og sem líður skort, sem á hvergi heima, sem á ekki mat á diskinn. Börnin þeirra sem þurfa að ganga í 3-4 grunnskóla af því foreldrar þeirra eiga hvergi húsaskjól.“ segir Kolbrún. 

Skólamálin eru einnig ofarlega hjá flokknum. Frambjóðendur vilja tryggja að efnaminni börn verði ekki út undan og að námsþörfum barna verði mætt. „Skóli án aðgreiningar er ekki að virka fyrir öll börn. Við verðum að fara að horfast í augu við kvíða, sjálfsskaða, sjálfsvígstilraunir og vaxandi vanlíðan barna og unglinga. 

Kolbrún segir að vilji sé til að stórefla almenningssamgöngur og draga úr umferðaröngþveitinu í borginni með því að fjölga göngubrúm og gerð mislægra gatnamóta. „Við berum líka virðingu fyrir fólki sem vill nota einkabílinn sinn, hér er vont veður marga mánuði á ári og verið að skutla börnum hingað á þangað, að segja við alla, farðu bara á hjólið þitt eða farðu á einhverja borgarlínu sem á eftir að koma eftir dúk og disk ef hún einhverntímann kemur, þetta er ekki raunveruleikinn í dag.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV