Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vilja tryggja aðgengi að og afnot af jörðinni

17.01.2016 - 18:13
Frá fornleifauppgreftri í Hofstaðakirkjugarði í sumar. Mynd af facebooksíðu uppgraftarins.
Fornleifafræðingar að störfum í Hofstaðakirkjugarði. Mynd af facebook-síðu verkefnisins. Mynd: Fornleifastofnun - Hofstaðir Excavation Facebook
Sveitarstjórnin í Skútustaðahreppi skoðar möguleika á að kaupa jörðina Hofstaði. Merkur fornleifauppgröftur hefur farið fram á jörðinni síðustu ár. Hofstaðir í Mývatnssveit komust í eigu ríkisins þegar aldraðir bræður sem áttu hana féllu frá. Vilji hefur verið meðal heimamanna að Skútustaðahreppur eignist jörðina.

Eftir að skeyti barst frá Ríkiskaupum nýlega var oddvita og sveitarstjóra Skútustaðahrepps falið að vinna að málinu.

Yngvi Ragnar Kristjánsson oddviti segir von sveitarstjórnar þá að Hofstaðir geti nýst samfélaginu sem best. „Í fyrsta lagi að hún geti áfram nýst varðandi landbúnað í sveitinni, í öðru lagi hefur verið mjög merkilegur fornleifagröftur þarna sem við viljum sjá vaxa og dafna.“ Grafreitur frá seinni hluta tíundu aldar hefur verið grafinn upp og rannsakaður síðustu ár og meðal annars staðfest að óskírð börn og þeir sem sviptu sig lífi voru ekki jarðsettir innan garðs.

„Síðan viljum við tryggja það, ef til kemur, að áin geti ennþá nýst gagnvart veiðinni. Þetta er mjög fallegur staður þannig að það er ekki ólíklegt að þarna verði einhver útivistarperla líka,“ segir Yngvi Ragnar sem telur mikilvægt að jörðin verði í almannaeigu. „Það versta sem getur komið fyrir okkur er ef hún lendir í einhverri einkaeigu þar sem hún lokast svo af. Það er kjarni málsins. Við sjáum fyrir okkur svolítið nýtingu hennar í anda þeirra bræðra sem bjuggu þarna síðast. Þeir vildu samfélaginu vel.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV