Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Vilja tímasetta áætlun gegn fátækt

11.01.2014 - 18:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Þriðjungur einstæðra mæðra er undir lágtekjumörkum og 20% erlendra ríkisborgara á Íslandi er atvinnulaus. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Velferðarvaktarinnar. Þar er lagt til að stjórnvöld setji fram tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig vinna skuli bug á fátækt á Íslandi.

Lára Björnsdóttir, formaður Velferðarvaktarinnar, segir að ekki verði við það unað að fátækt viðgangist í ríku landi eins og Íslandi. Fátækt hafi ákaflega skaðleg áhrif á heilsu og félagslegt líf einstaklingsins. 

Lára, sem hefur sinnt formennsku í Velferðarvaktinni frá stofnun, hefur ákveðið að setjast í helgan stein og lagði til við ráðherra að Velferðarvaktinni yrði hætt í núverandi mynd, en að stjórnvöld settu fram heildstæða aðgerðaráætlun til að vinna bug á fátækt.  Fátækt berist á milli kynslóða. 

Lára segir samfélagið allt annað en fyrir 30 til 40 árum og hugsanlega erfiðara að vera fátækur í dag en þá. „Það hafa alltaf verið börn sem hafa vaxið upp í fátækt og þau hafa flutt með sér fátæktina upp í fullorðinsár,“ segir Lára og bætir við að sum hafi haldist í fátækt fram á efri ár. „Allt þetta hefur verið kostnaðarsamt og skaðlegt fyrir samfélagið.“