Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja tilskipanir burt og yfirþjóðlegt vald

20.03.2019 - 17:00
EES · Erlent · ESB · Spegillinn
Mynd:  / 
Norsku samtökin Nei við ESB, sem barist hafa gegn aðild að ESB í bráðum hálfa öld, krefjast þess að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Noregs að EES-samningnum. Þau vilja nýjan samning án kvaða um innleiðingu á tilskipunum frá Evrópusambandinu.

Um leið og Norðmenn, eins og Íslendingar, fagna eða minnast þess að 25 ár eru liðin frá því að EES-samningurinn var lögleiddur verða raddir í Noregi háværari um að Norðmenn segi sig frá samningnum og semji upp á nýtt við Evrópusambandið. En hvers vegna að segja skilið við EES? Morten Harper, rannsóknastjóri samtakanna Nei við ESB í Noregi eða Nei til EU segir að meginástæðan sé að aðildin að EES sé of lík fullri aðild að ESB.

„Við teljum að við höfum afsalað of miklu valdi bæði með lagasetningu og yfirvaldi stofnanna ESB,“ segir Morten. Hann nefnir í þessu sambandi orkustofnunina ACER sem andstæðingar ESB telja að hafi yfirþjóðlegt vald í orkumálum. Krafan er að losna undir kvöðinni að innleiða tilskipanir frá ESB, losna undan valdi stofnanna og EFTA dómstólsins. En hvað tæki við ef Noregur segði skilið við EES?

ESB háð Noregi

Morten segir að möguleikarnir séu margir. Evrópska efnahagssvæðið sé mikilvægur markaður fyrir Noreg og Norðmenn eigi langa viðskiptasögu við Evrópusambandslöndin. Viðskipti Noregs séu einkum við Bretland þannig að innri markaðurinn skipti ekki eins miklu máli þegar Bretar segja skilið við ESB.
Krafa Nei við ESB sé að gera nýjan samning við Evrópusambandið sem feli ekki í sér afsal á valdi og sjálfvirka innleiðingu tilskipana.

„Við viljum að gerður verði venjulegur samningur við ESB um viðskipti við Evrópusambandslöndin,“ segir Morten.

En er eitthvað sem bendir til þess að Evrópusambandið sé tilbúið að gera nýjan samning við Noreg og hugsanlega líka Ísland? Morten segir að bæði löndin eigi umfangsmikil viðskipti við þessi lönd. En þetta séu gagnkvæm viðskipti því ESB selji Norðmönnum bæði þjónustu og vörur. Innflutingur þaðan sé meiri en útflutningur Norðmanna til ESB.

„Það þýðir að ESB hefur hagsmuni af því að gera nýjan samning ef við færum út úr EES-samningnum,“ segir Morten. Hann bendir einnig á að gerður hafi verið viðskiptasamningur við Efnahagsbandalagið áður en EES-samningur gekk í gildi. Sá samningur sé enn í gildi og fjalli um tollfrjálsan innflutning iðnaðarvara.

Mynd með færslu
 Mynd:
Mótmæli gegn EES samningnum

Hefur neikvæð áhrif á vinnumarkaðinn

En ef hætt verður að innleiða tilskipanir frá ESB þýðir það að krafa sé um að þær sem þegar hafa verið settar í lög fallir úr gildi. Morten segir að það geti verið mismunandi eftir reglugerðum. Margar fjalli um tæknilega hluti. Það sé ekki markmiðið að hafa algjörlega annað regluverk en ESB. Hann bendir á að undirboð á vinnumarkaði sé stórt vandamál í Noregi. Það tengist frjálsri för íbúa á evrópska efnahagssvæðinu sem er hluti af svokölluðu fjórfrelsi. Morten segir að undirboðin hafi neikvæð áhrif á atvinnulífið í Noregi.

„Þetta er dæmi um þar sem nauðsynlegt er að setja eigin reglur,“ segir Morten. Hann segir að það standi ekki til að loka landamærunum fyrir vinnuafli frá löndum innan ESB. Samtökin leggist gegn frjálsri för íbúa á evrópska efnahagssvæðinu og vilji að tekin verði upp skynsamleg stjórnun á innflutningi vinnuafls frá ESB-löndunum. Stjórnlaus innflutningur valdi því að mörg óábyrg fyrirtæki nýti sér þetta vinnuafl með undirboðum. Það hafi að sjálfsögðu afar slæmar afleiðingar fyrir fólkið.

„Að auki eyðileggur þetta möguleikana á að halda uppi heilbrigðu atvinnulífi. Það er mikilvægt í Noregi og líka á Íslandi. EES-samningurinn hefur valdið miklum vandræðum í Noregi hvað þetta varðar,“ segir Morten. Það sé skýringin á því að mörg stéttarfélög vilja betri samning við ESB til að bæta ástandið á vinnumarkaði.

Meirihlutinn hlynntur EES

Norðmenn hafa í tvígang gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB og í bæði skiptin var meirihlutinn á móti. Í fyrra skiptið 1972 voru 53,5% á móti og 1994 rétt rúm 52%. Andstaðan er enn talsverð. 2017 voru um 66% á móti aðild og í fyrra var þessi tala komin í um 64%. Seinni ár hefur afstaðan til EES-samningsins verið mæld. í könnun í fyrra voru rétt rúm 60% hlynnt samningnum, 21,5% á móti og um 18 af hundrað óákveðnir. Morten bendir á að gerð hafi verið könnun sem sýnir að meirihluti sé fyrir því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort segja eigi samningnum upp. Hann bendir á að bæði Noregur og Ísland hafi samþykkt EES-samninginn án þess að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla. Svissneska þjóðin hafnaði samningnum hins vegar í þjóðaratkvæðagreiðslu en sé samt sem áður með ágætis viðskiptasamning við ESB.

„Við teljum að þjóðin eigi að fá tækifæri til að segja sitt álit á EES-samningnum og þess vegna viljum við þjóðaratkvæðagreiðslu um hann,“ segir Morten Harper sem flytur á morgun fyrirlestur sem Heimsýn og fleiri félög sem eru á móti aðild að Evrópusambandinu standa fyrir.

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV