Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Vilja taka bækur sínar úr hillum bókasafna

Mynd með færslu
 Mynd:

Vilja taka bækur sínar úr hillum bókasafna

14.07.2014 - 10:33
Rithöfundar eru sumir hverjir svo ósáttir við niðurskurð á framlögum í Bókasafnssjóð höfunda að þeir vilja taka bækur sínar úr hillum bókasafna. Þetta sagði formaður Rithöfundasambands Íslands í Morgunútvarpinu á Rás 2. Greiðslur sem höfundar fá fyrir hvert útlán hafa lækkað um rúmlega helming.

Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands, ræddi kjör rithöfundar í Morgunútvarpinu á Rás 2. „Rithöfundar hérna hafa þurft að þola mjög mikla kjaraskerðingu. Nú síðast í vor alveg heiftarlega þegar Bókasafnssjóður höfunda var tekinn niður um ríflega helming," sagði Kristín Helga og kvað þetta hafa mikil áhrif á höfunda. Þeir fá greitt fyrir útlán bóka sinna úr Bókasafnssjóði. Eftir niðurskurð í vor fá þeir 17,85 krónur fyrir hvert útlán og hefur sú upphæð lækkað úr 37 krónum. „Sú tala sem liggur að baki í Bókasafnssjóði er einhvers konar geðþóttaákvörðun hjá stjórnvöldum. Þetta er svolítið eins og þið mynduð mæta í vinnuna ein mánaðamótin og það væri búið að ákveða að borga ykkur bara helminginn af laununum af því að það væri svo sem ekki til neitt mikið meira. Það varð þarna hrun og svona."

Kristín Helga segir að þetta sé gríðarleg kjaraskerðing fyrir rithöfunda sem hafa talað um að fara í aðgerðir, „Sumir eru nú bara orðnir það súrir að þeir vilja fara að taka út bækurnar sínar."

Kristín Helga setti greiðslurnar úr Bókasafnssjóði í samhengi við það sem fólk greiðir fyrir aðra afþreyingu. „Það að borga 17 krónur og 85 aurafyrir að fá lánaða eina bók út af safni meðan við liggjum uppi í sófa og pöntum okkur bíómynd á VOD-inu fyrir 780 kall án þess að hika, og teiknimynd fyrir börnin á 250 kall eða hvað það er, það gefur augaleið að þetta er í rauninni vanvirðing við bókmenntirnar í landinu."
Hún benti á að bókasafnskort hjá Reykjavíkurborg kostuðu 1.700 krónur fyrir fullorðna en árskort í sundlaugar kostuðu 30 þúsund krónur og fólk greiddi 25 þúsund krónur fyrir árskort í skíðalyftur. Það væri þó væri ljóst að fólk nýtti sér bókasöfnin mikið, og þau lifðu góðu lífi.

Leiðrétt 10.44: Í upphaflegri gerð fréttarinnar var sjóðurinn nefndur Bókasafnssjóður rithöfunda en hann heitir Bókasafnssjóður höfunda.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Hættulegar hugmyndir um bókaskatt