Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vilja Suðurstrandarveg færan alla daga

Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Bæjarráð Árborgar telur brýnt að sinnt sé vetrarþjónustu á Suðurstrandarvegi alla daga. Ráðið fer þessa á leit við Vegagerðina í ályktun Bæjarráðsfundar, í ljósi tíðra lokana Suðurlandsvegar undanfarið á Hellisheiði og í Þrengslum. Þar er beðið um að Suðurstrandarvegur verði færður um þjónustuflokk og fái þar með vetrarþjónustu 5 daga vikunnar.

Suðurstrandarvegur er nú í þjónustuflokki 4, sem þýðir að hann er hreinsaður 1-2 daga í viku. Í ályktun Bæjarráðs Árborgar er bent á að í þeim flokki séu vegir þar sem vetrardagsumferð mælist innan við 100 bílar á dag að meðaltali. Suðurstrandarvegur hafi þegar árið 2014 mælst með 172 bíla á dag við Festarfjall og 142 við Selvog. Því hafi átt að breyta um þjónustuflokk á veginum þegar síðasta haust. Tíðar lokanir á Suðurlandsvegi hafi mikil og neikvæð áhrif á íbúa og fyrirtæki á svæðinu og nauðsynlegt sé að hafa aðra leið færa alla daga á milli Suðurlands og höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja.

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV