Vilja styrkja stöðu kynferðisbrotaþola

30.11.2017 - 20:47
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Ný ríkisstjórn ætlar að bæta stöðu þolenda í kynferðisbrotamálum, bæði með því að styrkja innviði réttarvörslukerfisins og með því að rýna í lagaumhverfi kynferðisbrota. Þetta kemur fram í jafnréttismálakafla stjórnarsáttmálans sem kynntur var í morgunn.

Fram kemur í kaflanum að til standi að framfylgja og fjármagna að fullu nýja aðgerðaráætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota. Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, kynnti drög að téðri áætlun í október síðastliðnum. Áætlunin er 38 blaðsíður að lengd og byggir á vinnu samráðshóps sem skipaður var í mars árið 2016. 

Þar er gert ráð fyrir að styrkja innviði réttarvörslukerfisins með það að markmiði að styrkja stöðu brotaþola. Þá á að samhæfa og efla þjónustu við brotaþola á landsvísu. Lögð er mikil áhersla á forvarnir og fræðslu í málaflokknum, ekki síst fræðslu innan lögreglunnar svo lögreglumenn þekki málaflokkinn vel.

Áætlun um að  útrýma kynbundnu ofbeldi

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar kemur einnig fram að lagaumhverfi kynferðisbrota verði rýnt með það að markmiði að styrkja stöðu þeirra sem kæra kynferðisbrot.

Þá stendur til að fullgilda Istanbúl-samninginn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.

Enn fremur hyggst ríkisstjórnin beita sér fyrir því að gera áætlun - í samstarfi við sveitarfélög - um að útrýma kynbundnu ofbeldi, ekki síst stafrænu kynferðisofbeldi.

Vilja varanlega breytingu

Eins og kunnugt er féll síðasta ríkisstjórn eftir að uppreist æru kynferðisbrotamanna komst í hámæli í þjóðfélaginu. Í Kastljósi kvöldsins var rifjuð upp gagnrýni Vinstri grænna á Sjálfstæðismenn vegna þeirra mála og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, spurð hvort þau væru nú úr sögunni. Katrín sagði að það mikilvægasta sem hægt væri að gera væri að gera bragarbót á því hvernig brotaþolum væri sinnt og að farið yrði yfir stöðu þessara mála í réttarkerfinu. „Það þarf að tryggja að þessi vitundarvakning skili sér í varanlegri breytingu á okkar kerfi."

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði að málið hefði verið skoðað og rætt á vegum Alþingis að því er stjórnsýsluna varðar. „Þeir sem lesa stjórnarsáttmálann velkjast ekki í vafa um að við höfum verið að hlusta á þær raddir sem eru úti í samfélaginu vegna þessa málaflokks. Það mun birtast síðan í verkum stjórnarinnar hvernig því verður fylgt eftir."

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi