Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja styrkja kerfið og girða fyrir misnotkun

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Þörf er á víðtækum úrbótum eigi matskerfi sem er notað til að meta gæði umönnunar á hjúkrunarheimilum og ákvarða greiðslur til þeirra að þjóna tilgangi sínum. Fagfólk skortir þjálfun til að nýta kerfið og eftirlit stofnana þarf að bæta, meðal annars til að koma í veg fyrir að kerfið sé misnotað. 

Óánægja meðal notenda

Þetta er niðurstaða úttektar sem ráðgjafarfyrirtækið KPMG vann fyrir Landlæknisembættið. 

Spegillinn fjallaði síðastliðið vor um viðhorf fagfólks til Inter-Rai matskerfisins sem hefur verið notað hér á landi í um tvo áratugi. Viðmælendur sögðu það úrelt og innihalda óheppilega hvata. Það væri ósamræmi í skráningum milli hjúkrunarheimila, matsmenn fengju ekki næga þjálfun og því engin trygging fyrir því að kerfið mældi það sem það ætti að vera að mæla. 

Matskerfið á að endurspegla raunverulegan aðbúnað íbúa á hjúkrunarheimilum. Þrisvar á ári svarar fagfólk á hjúkrunarheimilum mörg hundruð spurningum um hvern íbúa og hjúkrunarfræðingar sem hafa umsjón með matinu skrá upplýsingarnar inn í miðlægan gagnagrunn. Upplýsingarnar lúta að gæðum umönnunar, heilsu og þjónustuþörf íbúanna, svokallaðri hjúkrunarþyngd. 

Háum fjárhæðum úthlutað á grundvelli kerfisins

Gæðavísar sem notaðir eru hér á landi og hafa verið aðlagaðir að íslenskum aðstæðum eru 20 talsins. Einn tekur til þess að algengi þvagfærasýkinga fari ekki yfir 16%, annar til þess að  hlutfall þeirra íbúa sem fá svefnlyf oftar en tvisvar í viku fari ekki yfir 53%. Við mat á gæðum hjúkrunarheimila er ekki stuðst við nein skýr viðmið um mönnun. Fjárveitingar til hjúkrunarheimila taka þess í stað mið af svokölluðum hjúkrunarþyngdarstuðli. Heimili þar sem meðalumönnunarþörf íbúa telst mikil fær meira greitt en heimili þar sem meðalumönnunarþörf, eða þyngd íbúa, telst lítil.

„Undanfarin ár hefur ekki verið miðlæg kennsla og grundvöllurinn fyrir því að matið sé gert rétt er að það sé eftirlit með kennslunni og hún sé góð.“ 

Þetta segir Ingibjörg Hjaltadóttir, dósent við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Hún hefur unnið mikið með RAI-kerfið og byggði doktorsverkefni sitt á gögnum úr því. Það sé verið að deila út gríðarlegum fjárhæðum með hjálp þessa kerfis og því nauðsynlegt að tryggja að það sé rétt notað. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Ingibjörg hefur stúderað Rai-kerfið.

Hún bendir á að árið 1996, þegar kerfið var innleitt, hafi verið mikið lagt upp úr því að þjálfa fagfólk á öldrunarheimilum og kenna því hvernig nýta mætti niðurstöður matsins við umbótavinnu. Nú hafi öll kennsla legið niðri í um sjö ár að undanskildu einu netnámskeiði sem hefur verið í boði frá því í fyrra. 

Tortryggni og skortur á þjálfun

Í skýrslu KPMG kemur fram að flestir starfsmenn hjúkrunarheimila sem nota matskerfið séu sammála um að mikill skortur sé á fræðslu, þjálfun, eftirfylgni og eftirliti með notkun þess. Þá telja þeir að aukið eftirlit gæti tryggt samræmi og minnkað tortryggni milli hjúkrunarheimila.

Þeir sem gjörþekki kerfið geti nýtt það til góðs

Fram kemur að til að kerfið virki sem best þurfi þekking þeirra sem nota það að vera góð. Þeir sem þekki lítið til kerfisins skrái upplýsingar í það af skyldurækni til að fá fjármagn. Þeir sem gjörþekki kerfið geti aftur á móti nýtt það markvisst við stefnumótun og umbótavinnu og til að taka ákvarðanir um meðferð. Ingibjörg segir að stærri heimili hafi oft frekar bomagn til þess að nýta kerfið. 

Geti skeikað miljónum vegna rangrar skráningar

En hvað gerist ef upplýsingar um þjónustuþörf og heilsu íbúa eru ekki rétt skráðar inn í kerfið? 

„Þá getur greiðslan frá ríkinu til hjúkrunarheimilisins annað hvort orðið of mikil eða of lítil.“ 

Hversu mikil áhrif hefur þessi skráning og hversu mikil áhrif getur vanþekking starfsmanns eða brotavilji ef því er að skipta haft á niðurstöðuna?

„Það getur alveg skeikað einhverjum milljónum fyrir hvert hjúkrunarheimili, jafnvel tíu milljónum. Fer eftir því hvað þau eru stór,“ segir Ingibjörg. 

Hún telur að efla mætti eftirlit með skráningu, koma jafnvel á fyrirvaralausum eftirlitsheimsóknum. Þá segir hún að starfsmenn hjúkrunarheimila þyrftu að geta kvartað til einhvers ráðs eða stofnunar hafi þeir starfsmenn annars hjúkrunarheimilis grunaða um að svindla á kerfinu. Slíkt komi oft upp í umræðunni þó ekki sé endilega fótur fyrir því. Hún segist ekki hafa ástæðu til að ætla að fólk reyni að leika á kerfið, það komi frekar upp skekkja vegna vanþekkingar. 
 
Landlæknisembættið hyggst bæta úr skorti á þjálfun fagfólks með því að bjóða upp á námskeið og styðja sérstaklega við minni hjúkrunarheimili. 

„Það er margt sem kemur út úr þessu mælitæki sem mætti nýta betur. Það er það sem fólk er að kalla eftir. Að það sé ekki að setja inn þarna upplýsingar sem enginn notar nema sjúkratryggingar,“ segir Ragnheiður Arnardóttir, verkefnastjóri Miðstöðvar rafrænnar sjúkraskrár hjá Embætti Landlæknis. 
Hún hefur ekki áhyggjur af því að vanþekking matsmanna verði til þess að skráning verði óáreiðanleg. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Ragnheiður Arnardóttir er Verkefnastjóri Miðstöðvar rafrænnar sjúkraskrár hjá Landlæknisembættinu.

Gömul útgáfa sem talar ekki við önnur kerfi

Kerfið er ekkert sérstaklega notendavænt og embættið vill bæta úr því. Sú útgáfa sem nú er notuð er um 15 ára gömul að sögn Ragnheiðar. Þá vill embættið koma í veg fyrir tvískráningu með því að gera fagfólki kleift að miðla upplýsingum milli kerfisins og nýrri kerfa sem notuð eru á Landspítalanum og í heimahjúkrun. Þá hyggst það birta niðurstöður gæðavísa. KPMG hvatti til þess að niðurstöður yrðu birtar til að skapa grundvöll til samanburðar milli hjúkrunarheimila. 

Landlæknir og Sjúkratryggingar stilli saman strengi

Í skýrslunni segir að þótt InterRai kerfið sé í grunninn gæðamatskerfi sé það jafnframt notað til að mæla hjúkrunarþyngd einstaklinga sem aftur hafi áhrif á greiðslur til hjúkrunarheimila. Upplýsingar um þessa þætti fari annars vegar til Embættis landlæknis, það er niðurstöður gæðavísa, hins vegar til Sjúrkatrygginga Íslands, það er upplýsingar um hjúkrunarþyngd. Þessar stofnanir þurfi að finna leið til að tengja betur saman gæðakröfur og greiðslur til að draga úr hættu á að til staðar séu hvatar til að auka tekjur á kostnað gæða. Ingibjörg útskýrir samspil greiðslna og gæða með eftirfarandi hætti:

„Þau sem bjuggu til þetta mælitæki lögðu áherslu á að þetta væri svona eins og vogarskál, að ef þú reynir að fá hærri þyngdarstuðul eða meiri peninga getur það litið þannig út að þú sért með mjög léleg gæði. Sama með ef þú reynir að láta líta út fyrir að þú sért með betri gæði en raunin er. Þá getur verið að þú lendir í því að fá lægri fjárhæð. Það þarf að haldast í hendur, bæði gæðin og þetta greiðslukerfi.“ 

Stofna vinnuhóp

Sjúkratryggingar Íslands, Velferðarráðuneytið og Landlæknisembættið hyggjast stofna vinnuhóp og vinna að því að samræma eftirlit sitt. 

„Sjúkratryggingar sjá um greiðslurnar og miða út frá niðurstöðum íákveðnum þáttum í mælitækinu og við erum að gefa endurgjöf á gæðin. Við viljum samþætta þetta meira þannig að greiðslur séu ekki að hækka á kostnað gæða þjónustunnar sem er veitt. Þannig að það sé enginn hvati til að minnka gæði en auka greiðslur,“ segir Ragnheiður. 

Hafið þið grun um að svo hafi verið?

„Nei við höfum ekkert sem segir okkur það. Þetta kom bara fram í samtölum við starfsfólk, þegar KPMG fór í þessa vinnu. Það er ekkert sem segir að það sé eitthvað í ólagi og engin ástæða til að ætla það en þetta gæti gerst, þetta er  eitthvað sem við viljum koma í veg fyrir að gerist en ekki þar með sagt að það hafi gerst eða muni gerast. Við viljum bara verja okkur fyrir því og þá að sjálfsögðu notendur þjónustunnar.“

„Svíar vita ekkert hvernig ástandið er hjá þeim“

Í skýrslu KPMG segir að InterRAI kerfið uppfylli þær kröfur sem gerðar séu til þess sem matstækis, það þurfi fyrst og fremst að breyta ytri þáttum. Þá segir að ekki hafi verið bent á annað kerfi sem geti uppfyllt sömu kröfur og RAI-kerfið. Ingibjörg segir að það þurfi að vera kerfi.  „Áður en kerfið kom inn vissum við ekkert hvernig gæðin voru inni á hjúkrunarheimilum.ég hef rætt við Svía sem vita ekkert hvernig ástandið er hjá þeim, svo koma bara hneykslismál í fjölmiðlum. Varðandi greiðslur til hjúkrunarheimila, þegar ég var að byrja í hjúkrun, þá voru nokkrar upphæðir sem heimilin voru að fá, misjafnt eftir heimilum og það var ekki byggt á neinum gögnum um heilsufar einstaklinganna á hjúkrunarheimilunum og manni virtist að sá sem hefði hæst og kvartaði mest fengi mest borgað. Það er bara ekki í boði í dag að hafa ekkert vísindalegt eða mælanlegt viðmið þegar þú ert að útdeila tugum milljóna. Ef við ætlum að hætta með Rai-matið þarf eitthvað annað í staðinn.“ 

Ekki liggur fyrir hversu tímafrekt það verður að gera úrbætur á InterRai-kerfinu.  

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV