Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vilja stækka skólann á Djúpavogi

Djúpivogur
Telegraph mælir með heimsókn á Djúpavogshöfn. Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
„Við erum sammála því að kanna alla möguleika og að leggjast ekki gegn neinum sameiningum. Halda öllum möguleikum opnum og skoða hvað komi best út fyrir sveitarfélagið,“ segir Ásdís Hafrún Benediktsdóttir en hún skipar 2 sæti á H-lista Samtaka um samvinnu lýðræði í Djúpavogshreppi.

Þar bjóða fram tveir listar en um tíma stefndi í að sjálfkjörið yrði í sveitarfélaginu. Nýr listi Lifandi samfélag (L) tilkynnti framboð en í honum eiga sæti fulltrúar úr báðum listum sem buðu fram í síðustu kosningum. Ekki voru áttir sáttir við að íbúar hefðu ekkert val og það var ekki síst Þór Vigfússon, sem skipar 10. sæti  H-lista sem átti frumkvæði að honum en hann skoraði á íbúa Djúpavogs að bjóða fram annan lista til að hægt yrði að kjósa í sveitarfélaginu.

Athygli vekur að Andrés Skúlason, oddviti á Djúpavogi, gefur ekki kost á þar en hann hefur verið áberandi talsmaður sveitarfélagsins og baráttumaður fyrir einu helsta hagsmunamáli Djúpavogsbúa sem er heilsársvegur yfir Öxi. Ekki er útilokað að Andrés reyni að hasla sér völl í landsmálunum á vettvangi Vinstri grænna.

Báðir flokkar vilja kanna sameiningarmöguleika

Báðir listarnir eru sammála um að skoða þurfi sameiningu við önnur sveitarfélög eftir kosningar en nýleg skoðanakönnun á meðal sex sveitarfélaga á Austurlandi sýnd talsverðan áhuga hjá íbúum, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðar og Borgarfjarðar eystri á sameiningu.

Í stefnuskrá L-lista segir um sameiningar meðal annars. Sífellt flóknari stjórnsýsla leggur öllum sveitarfélögum, óháð stærð, meiri skyldur á herðar og væntingar íbúa til þjónustu hafa aukist. […] Í því ljósi er það stefna L-listans að hefja skoðun á kostum og göllum þeirra sameiningarkosta sem eru í boði með það fyrir augum að íbúar geti sem fyrst kosið um sameiningu.“

Fiskeldi og aukin vinnsla gætu fjölgað störfum

Eftir að Vísir fór með fiskvinnslu sína frá Djúpavogi á kjörtímabilinu sem er að ljúka hefur meðal annars verið horft til aukins fiskeldis og eldisvinnslu til að fjölga störfum. Nú þegar hefur Búlandstindi og Fiskeldi Austfjarða tekist að endurheimta þau störf sem töpuðust en fiskeldi Austfjarða vill auka talsvert eldi í Berufirði. Bændur í firðinum hafa gert athugasemdir við frummatsskýrslu um aukninguna og óttast meðal annars sjónmengun og mengun strandlengjunnar. Ekkert er minnst á fiskeldi í upptalningu á helstu áherslumálum H-listans en í áherslum L-listans segir að gangi áætlanir eftir varðandi vinnslu í tengslum við fiskeldi sé ljóst að bæta verði aðstöðuna í Gleðivík með uppbyggingu á nýjum hafnargarði.“ Ljóst er að í kosningunum á Djúpavogi er ekki kosið með eða á móti auknu fiskeldi enda hefur sveitarfélagið ekki skipulagsvald yfir hafsvæði í Berufirði.

Svo gæti farið að fyrirtækin tvö sem áforma aukið laxeldi á Austfjörðum, Laxar fiskeldi og Fiskeldi Austfjarða byggi upp sameiginlega eldisvinnslu. Staðsetning hefur ekki verið ákveðin en Laxar hafa samið við Fiskeldi Austfjarða og Búlandstind um að sjá um slátrun á fyrsta fiskinum úr kvíum í Reyðarfirði og þá hafa Laxar skrifað undir viljayfirlýsingu við Djúpavogshrepp um uppbyggingu á vinnslu og umbúðaframleiðslu í Gleðivík.

Báðir lista vilja byggja við skólann

Á Djúpavogi bjuggu um áramót um 460 íbúar og nokkrir óvenju stórir árgangar eru á leikskólaaldri. Í málefnaskrá L-listans kemur fram að hann vilji að eigi síðar en skólaárið 2019-2020 verði tekin í notkun viðbygging við núverandi skólahús og að öll kennsla á grunnskólastigi fari fram undir sama þaki. Sveitarfélagið þurfi að gæta aðhalds í fjármálum og leita leiða til að auka tekjur. Ljóst sé önnur brýn og kostnaðarsöm verkefni þurfi að komast til framkvæmda á næstunni svo sem fráveita, malbikun og borun eftir heitu vatni. Forgangsraðað verði með þeim hætti að grunnþjónusta sé tryggð. Í stefnuskrá H- lista segir að æskilegt væri að starfsemi grunnskóla verði í einni byggingu. Því þurfi viðbyggingu við skólann sem rúmi alla starfsemi og mötuneyti.

Nálgast má helstu áherslumál framboðanna á kosningavef RÚV og L-listinn er með síðu á facebook sem heitir Lifandi samfélag.