Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Vilja spilavíti á Hótel Nordica

08.02.2010 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Tillaga Icelandair að löglegu spilavíti á Íslandi sem lögð hefur verið fyrir stjórnvöld er að danskri fyrirmynd, en þar er rekstur spilavíta leyfisskyldur og háir skattar teknir af hagnaði starfseminnar. Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, segir að ef fá eigi fleiri ferðamenn til landsins þurfi að auka framboð á afþreyingu.

Forsvarsmenn flugfélagsins hafa fundað með stjórnvöldum um málið og borið það undir  landlækni, lögreglu, ferðaþjónustuna og SÁÁ. Þar er enn verið að skoða málið. Forstjóri Icelandair, Björgólfur Jóhannsson, segir í Fréttablaðinu að löglegt spilavíti á Íslandi gæti orðið mikill styrkur fyrir ferðaþjónustuna. Það væri hagur af því fyrir hið opinbera að koma fjárhættuspili upp á yfirborðið og ríkið gæti haft af því skatttekjur. Það eru einmitt kostirnir sem Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, segist í samtali við Fréttablaðið, sjá við hugmyndina, hinsvegar sé spilafíkn alvarlegt vandamál sem beri að huga að varðandi þetta mál.

Í DV í dag segir formaður samtaka áhugafólks um spilafíkn að það væri til háborinnar skammar ef stjórnvöld ætluðu að stuðla að rekstri spilavítis hér á landi.

Hilton Hótel Nordica við Suðurlandsbraut í Reykjavík tilheyrir Icelandair hótelkeðjunni. Eins og fram hefur komið hefur hótelkeðjan sýnt gömlu heilsuverndarstöðinni í Reykjavík áhuga en Magnea Þórey, framkvæmdastjóri keðjunnar, segir að aukin afþreying verði að fylgjast að við fjölgun hótelherbergja.